Monday, April 8, 2013

Clippers er betra en Lakers og hvað svo?


Þið eruð búin að heyra þetta allt saman í kvöld. Clippers var að tryggja sér efsta sætið í Kyrrahafsriðlinum í fyrsta sinn og gerði það með fjórða sigrinum á Lakers í vetur. Nú er það Clippers sem er sterkara liðið í Borg Englanna.

Við höfum alls ekki mikið um þennan leik að segja. Lakersliðið lítur bókstaflega illa út og verður bara sópað út úr úrslitakeppninni með svona spilamennsku.

Clippersliðið er í raun ekki skömminni skárra. Vissirðu að Clippers er ekki nema tveimur leikjum yfir 50% vinningshlutfalli síðan það vann sautján leiki í röð í desember?

Við vitum að Clippers á alltaf möguleika á að gera þokkalega góða hluti með alla þessa breidd og Chris Paul sem leikstjóra. En það er samt eitthvað við þetta lið - það er bara ekki sannfærandi um þessar mundir. Sóknarleikurinn er stirðbusalegur og þetta lið lendir ítrekað í bullandi vandræðum gegn bæði vegg og veltu og stórum og sterkum framlínum.

Við vonum að við höfum rangt fyrir okkur, en eitthvað segir okkur að þetta Clipperslið fari ekki mjög langt í úrslitakeppninni.  Og fari jafnvel snemma í sumarfrí ef það verður á sama róli og undanfarið.

Þetta er ljóta neikvæðnin í okkur. Við sem erum að reyna að vera jákvæðari.

Jæja, það gengur bara betur næst.