Thursday, March 28, 2013
Nokkur orð um sigurgöngu Miami Heat
Eins og flest ykkar vita höfum við ekki skrifað um sigurgöngu Miami Heat af því við erum orðin svo logandi hrædd við jinx-mátt okkar. Miami hefði tapað strax sama dag ef við hefðum farið að skrifa um þetta, svo við tókum þá ákvörðun að geyma skrifin þangað til tapið kæmi.
Í sjálfu sér er ekki margt um þessa sigurgöngu að segja. Miami vann fimm leikjum fleiri en Houston-liðið frá því 2008 sem á einhvern óskiljanlegan hátt vann 22 leiki í röð. Hérna getur þú skoðað samantekt yfir helstu tölfræði Miami á sigurgöngunni.
Miami er hörkugott lið og er vel að því búið að vera komið svona í metabækurnar. Það skiptir hinsvegar nákvæmlega engu máli að vera með svona fallega rispu í kladdanum ef liðið dettur úr keppni í annari umferð í úrslitakeppninni. Eigum við ekki að segja að í versta falli gefi rispan Miami aukna trú á að það geti varið titil sinn í sumar.
Til gamans fórum við aðeins ofan í saumana á sigurgöngu Miami og fengum það út að innan við helmingur sigranna kom gegn liðum sem koma til með að leika í úrslitakeppninni.
Það er auðvitað óhjákvæmilegt að lið vinni nokkra gæðasigra á 27 leikja sigurgöngu, en það verður líka að segjast að stór hluti þessara sigra kom á móti liðum sem eru í besta falli rusl. Það er ljúft að spila í Austurdeildinni.
Þrátt fyrir þetta ætlum við samt ekkert að fara að gera lítið úr sigurgöngunni hjá Miami. Hún er mjög flott og það er ekkert annað en sögulegt afrek að vinna hátt í 30 körfuboltaleiki í röð undir hvaða kringumstæðum sem er.
Eðlilega hafa nokkrir pennar farið að skoða Miami í sögulegu samhengi og bera það saman við önnur meistaralið eftir að sigurgangan varð svona löng. Við viljum nú fara varlega í það. Leikurinn hefur breyst gríðarlega á síðustu árum og þó Miami sé mjög sterkt lið, hefur það líka æpandi veikleika sem mörg af bestu liðum sögunnar hefðu án efa nýtt sér til fullnustu.
Nei, þetta Miami-lið þarf að vinna fleiri titla ef við eigum að setja það á stall með bestu liðum sögunnar.
LeBron James hinsvegar...
Við höfum skrifað um James af og til í vetur en nú er hrifning okkar á þeim leikmanni orðin gjörsamlega stjórnlaus.
Við flissum eins og börn þegar við sjáum hann spila. Hann fær okkur til að gleyma öllum fordómum og fyrri reynslu. Tær snillingur og alveg einstakur körfuboltamaður.
Hann er kominn með fótinn í dyrnar að koníaksstofunni þar sem Larry, Magic og Jordan hanga, reykja vindla, drekka viskí og tala um hvað þeir voru góðir.
Hann á eftir að setjast þarna með þeim.
Það er bara tímaspursmál.
Efnisflokkar:
Heat
,
LeBron James
,
Metabækurnar
,
Ógnarstyrkur
,
Sigurgöngur