Í kvöld fengum við að sjá niðurstöðurnar úr vinsældakosningunni fyrir Stjörnuleikinn í NBA sem fram fer þann 17. febrúar í Houston. Skiptar skoðanir eru um það hversu sanngjarnt það sé að láta bolinn ráða byrjunarliðunum en það skiptir svo sem litlu máli í stóra samhenginu.
Við sjáum að í Austurdeildinni eru tveir menn frá Miami og tveir frá Boston og vestanmegin eru fjórir af fimm spilurunum í byrjunarliðinu frá Los Angeles.
Fréttnæmast við kjörið að þessu sinni er að Kobe Bryant fékk flest atkvæði allra leikmanna og setti met með því að fá sæti í byrjunarliðinu 15. árið í röð.
Hann hefur jafnan notið góðs af því að spila með liði sem er með mörg atkvæði á bak við sig og fór að okkar mati of snemma inn í byrjunarliðið út á vinsældir sínar þegar hann var á öðru ári í deildinni þrátt fyrir að vera aðeins 15 stiga maður.
Í ár leikur hinsvegar enginn vafi á því að Bryant eigi heima í byrjunarliðinu og það er frekar að fólk sé að rífast yfir til dæmis miðherjastöðunum beggja vegna.
Annars vörum við fólk við því að eyða of mikilli orku í að rífast um pólitíkina í kring um Stjörnuleikinn, það er tímasóun.