Tuesday, December 11, 2012
Af hverju er Golden State að vinna körfuboltaleiki?
Merkilegir hlutir eru að gerast í körfuboltanum í Oakland þessa dagana. Þó er kannski rangt að segja að þessir hlutir séu að gerast í Oakland. Þeir eru að gerast víða um Bandaríkin og koma sannarlega á óvart.
Golden State Warriors er nefnilega allt í einu farið að vinna körfuboltaleiki og það ekki síst á útivöllum. Liðið vann sinn fjórða útisigur í röð á erfiðu sjö leikja keppnisferðalagi í nótt þegar það skellti Charlotte "Við erum ekkert svo að fara að enda leiktíðina 7-75" Bobcats, 104-96.
Golden State hefur því tryggt sér yfir 50% vinningshlutfall á 7+ leikja keppnisferðalagi í fyrsta skipti síðan leiktíðina 1970-71.
Þessi fjögurra leikja sigurganga Warriors er sú lengsta á tímabilinu og aðeins San Antonio (11-2) hefur byrjað betur á útivelli en Golden State (8-4).
Þessir átta sigrar í fyrstu tólf útileikjum Warriors er besta útivallabyrjun liðsins síðan leiktíðina 1993-94.
Sigur Warriors (14-7) á Bobcats tryggði að lokum bestu byrjun liðsins í deildakeppninni síðan leiktíðina 1991-92. Já, það eru um það bil tuttugu ár síðan körfuboltaþenkjandi Oakland-búar hafa verið svona glaðir að hausti.
Í tilefni af þessari litlu rispu Warriors ákváðum við að kíkja aðeins í bækurnar og komumst að raun um að þessi fjögurra leikja sigurganga liðsins - og sjö sigrar í síðustu átta leikjum - er besti árangur liðsins síðan haustið 2007 þegar það vann fimm leiki í röð og átta af níu.
Það er þó aldrei langt í grínið þegar þessi ágæti klúbbur á í hlut, því liðið hóf leiktíðina haustið 2007 á því að tapa fyrstu sex leikjunum áður en það náði ofangreindri rispu. Þetta félag er með ólíkindum.
Það var auðvitað Stephen Curry sem fór fyrir Warriors í sigrinum á Kisunum í nótt þegar hann skilaði mjög svo Curry-legri 27/7/7 línu.
Merkilegt hvað þessi rúmlega 30 kílóa piltur nær alltaf að skila af fráköstum, en hann er með fjögur að meðaltali í leik auk sex stoðsendinga og tæplega 18 stiga á ferlinum og er að hóta því að skila 20 stigum í leik í fyrsta skiptið á ferlinum í ár.
Eins og nánast alltaf þegar lið stíga upp úr flórnum og fara að vinna leiki, eru það varnarleikur og fráköst sem eru að skapa velgengni Golden State, en liðið er nú samt að fá tölfræðigúrúa til að klóra sér ansi fast í hausnum í vetur. Þeir botna ekkert í því af hverju liðinu gengur svona vel.
Ykkur er óhætt að bæta okkur á þann lista - Golden State hefur ekkert með það að gera að vinna 14 af 21 leik. Ekki undir neinum kringumstæðum.
Eins og alltaf, alltaf, alltaf, hanga lágmark ein alvarleg meiðsli eins og draugur á liði Golden State. Það er í meira lagi sorglegt að lesa línurnar "og þetta er þeim að takast án Andrew Bogut" í hverri einustu umfjöllun um liðið.
Bogut myndi styrkja liðið mikið ef hans nyti við, en við óttumst að það sama sé í gangi hjá Bogut og Andrew Bynum og ráðleggjum stuðningsmönnum Warriors að halda nú ekki niðri í sér andanum meðan þeir bíða eftir að Balkanskaga-Ástralinn skemmtilegi nái sér af einhverjum af þeim 1300 meiðslum sem hrjá hann.
Nú höfum við ekki horft mikið á Golden State spila í vetur, raunar ekki nema örfáar mínútur, en það þýðir ekki að við getum ekki myndað okkur skoðanir á ástæðunum að baki nýfundinni velgengni liðsins. Skárra væri það nú. Þú veist að við hötum nú ekki að freta einhverjum órökstuddum skoðunum út í loftið.
Við höfum minna en enga trú á Mark Jackson sem þjálfara, svo við ætlum ekki að þakka honum viðsnúninginn. Jackson er ekki annað en þeldökkur Vinny del Negro í okkar bókum. Afsakið orðbragðið.
Nei, við ætlum freka að henda Ewing-kenningu á Monta Ellis.
Sá skotóði og skemmtilegi bakvörður fór eins og flestir vita til Milwaukee í skiptum fyrir Andrew Bogut (og fleira) og svo virðist vera að það hafi haft þessi fínu áhrif á Warriors, jafnvel þó Bogut spili ekki neitt.
Tölfræðingar hafa alla tíð haft uppi efasemdir um hagkvæmni þess að vera með lágvaxinn og óhemju skotglaðan mann í skotbakvarðarstöðunni og aumingja Milwaukee er að heita má komið með tvo slíka, því seint verður Brandon Jennings ruglað saman við John Stockton þegar kemur að leikstjórn og listinni að gefa boltann.
Milwaukee getur unnið hvaða lið sem er hvenær sem er eins og Boston og Brooklyn fengu að vita á dögunum, en oftar en ekki skjóta þeir Ellis og Jennings liðið sitt út úr leikjum en inn í þá þó þeir séu mjög erfiðir viðureignar fyrir hvaða bakverði sem er.
Auðvitað er það bilun að kenna Monta einum um þennan viðsnúning hjá Golden State, því liðið er jú líka með unga og efnilega leikmenn eins og Klay Thompson og Harrison Barnes í bland við fína rulluspilara eins og Jarrett Jack og Carl Landry.
Við ætlum samt að kenna aumingja Ellis um þetta allt saman, eins og kvikindin sem við erum.
Við könnumst við nokkra stuðningsmenn Golden State Warriors á Íslandi.
Þetta eru oftar en ekki menn á besta aldri sem festust í neti Oakland liðsins þegar það hafði Run-TMC gengið í sínum röðum í kring um 1990.
Það hefur ekki verið neitt grín að halda með þessu liði síðan og ef þetta það verður á einhvern hátt samkvæmt sjálfu sér, verða þeir Steph Curry og David Lee væntanlega báðir komnir í gifs áður en við vitum af. Ekki síst eftir að hafa fengið svona gott jinx frá ritstjórn NBA Ísland.
Við vonum nú samt að Golden State pappíri sig og nái sér einu sinni á strik, fjandakornið. Það er nú kominn tími á það og stuðningsmennirnir eiga það skilið, enda með þeim hollari og betri í gervallri NBA deildinni.
Við erum fjarri því búin að fyrirgefa Warriors að tapa nær öllum leikjum sínum viljandi á síðustu leiktíð til að missa ekki valréttinn sinn frá sér, en okkur gruar að Körfuboltaguðirnir sjái til þess að jafnt verði í spilunum þegar yfir lýkur.
Það er venjulega þannig, nema einna helst þegar San Antonio á í hlut.
P.s. - Á neðstu myndinni í færslunni má sjá Stephen Curry sem barn í kjöltu föður síns Dell Curry sem var heimsklassa skotmaður á sínum tíma. Við hlið Curry-feðga situr Mitch Richmond úr Run-TMC genginu og sá gráhærði á bakvið er Don Nelson, sem þjálfaði Warriors-liðið með þá Mullin, Richmond og Hardaway.
Efnisflokkar:
Furður veraldar
,
Sigurgöngur
,
Stephen Curry
,
Warriors