Tuesday, November 27, 2012

Z-Bo og fráköstin


Zach Randolph, eða Z-Bo eins og hann er gjarnan kallaður, átti ljómandi fínan leik þegar lið hans Memphis marði undirmannað lið Cleveland 84-78 í nótt.

Randoph skoraði 19 stig í leiknum og hitti úr 8 af 11 skotum sínum, en hann hirti aðeins 8 fráköst á þeim 36 mínútum sem hann spilaði. Flestir leikmenn í deildinni yrðu sáttir við að hirða 8 fráköst í leik, en ekki Z-Bo.

Þessi átta fráköst voru auðveldlega það langminnsta sem hann hefur tekið í leik í vetur og var þetta í fyrsta skipti sem hann nær ekki tveggja stafa tölu. Fyrir leikinn í nótt, hafði hann ekki tekið undir 11 fráköst í hverjum einasta leik í vetur, sem er ansi magnað.

Randolph er með 13,4 fráköst að meðaltali í leik þegar þetta er skrifað og er í öðru sæti deildarinnar í þeim tölfræðiflokki, en hann tapaði reyndar illa í frákastabaráttunni fyrir manninum sem leiðir deildina í leiknum í nótt.

Brasilíumaðurinn Anderson Varejao hjá Cleveland reif nefnilega niður 22 fráköst og er því enn öruggur í efsta sætinu á frákastalistanum með rúmlega 14 að meðaltali í leik. Nokkuð óvæntur árangur hjá Varejao.