Friday, November 16, 2012

Skál fyrir ykkur, Knicks-menn


New York Knicks byrjar leiktíðina 6-0 og hefur ekki byrjað betur síðan það byrjaði 7-0 keppnistímabilið 1993-94. Ef þú ert með sagnfræðina á hreinu manstu að þá fór liðið alla leið í lokaúrslitin þar sem það tapaði fyrir Houston Rockets í oddaleik.

Eins og lesendur NBA Ísland vita, höfum við verið að þamba Hatorade á Knicks og verið með leiðindi út í liðið mjög lengi. Megnið af þessum barnaskap er í nefinu á okkur en við ætlum ekki að taka hann alla leið og halda því fram að það sé ekki vel af sér vikið að vinna lið eins og Miami og San Antonio líkt og Knicks hefur verið að gera.

Það er með ólíkindum að sjá hvað kúltúrinn í liði Knicks hefur breyst mikið.

Það er freistandi að skrifa eitthvað á þessu á sigurvegarann Jason Kidd og það hlýtur að spila sinn þátt í velgengni Knicks að liðið skuli nú vera komið með tvo ágæta menn til að handleika knöttinn, þá Kidd og svo svar Bandaríkjanna við Ágústu Johnson, hann Raymond Felton.

New York er að passa mjög vel upp á boltann það sem af er, og það er einn af þáttunum í velgengni liðsins.

Borið hefur á því að menn eins og Carmelo Anthony og JR Smith séu að gefa boltann og spila leikinn eins og á að spila hann. Þetta eru stórtíðindi í okkar eyru. Svo kemur Rasheed Wallace bara inn af bekknum og byrjar allt í einu að setja niður þriggja stiga skot ofan á allt saman.

Við nennum ekki að spá sérstaklega í það hvað gerist þegar Amare Stoudemire kemur loksins aftur, en þessi velgengni liðsins án hans er því miður að segja óþægilega margt um virði hans sem leikmanns í dag.

Það er ekki vegur í helvíti að New York haldi áfram að spila svona fram á vorið. Við vitum öll hvað langar leiktíðir taka sinn toll á alla leikmenn, hvað þá að svona öldungadeild eins og Knicks er með núna.

Það er hinsvegar mjög jákvætt að sjá hvað liðinu vegnar vel í byrjun og auðvitað er gaman að skuli vera komið ósvikið "buzz" í þessa miklu körfuboltaborg.

Við skulum ekkert fara í grafgötur með það. Það fer pínulítið í taugarnar á okkur að New York skuli allt í einu vera farið að vinna körfuboltaleiki, en aumingja stuðningsmennirnir eiga það alveg skilið.

Gremja okkar í garð félagsins hefur frekar beinst að stjórn liðsins undanfarin ár og einum og einum leikmanni, en stuðningsmönnunum. Þeir eiga allt gott skilið eins og við höfum margoft sagt.

Megi gleðin endast ykkur sem lengst, Knicks-menn og gangi ykkur vel gegn Húnunum í Elvisbæ í kvöld.