Friday, November 16, 2012
Memphis er á réttri leið
Fyrir utan Öskubuskuævintýrið New York Knicks, hefur okkur þótt einna áhugaverðast að fylgjast með byrjun Memphis Grizzlies nú í haust. Liðið virkar óhemju sterkt í byrjun vetrar, þó það sé um það bil 10% að marka af því leiktíðin var jú að hefjast.
Memphis er allt í einu farið að hitta úr langskotum og hætt að fá þrjátíu-núll rispur í grillið þegar það hvílir byrjunarliðsmennina. Húnarnir eru með skemmtilegt og vel byggt lið sem skarfar eins og við elska að fylgjast með.
Kannski má segja að Memphis sé eitt af síðustu hefðbundnu liðunum í NBA, ekki síst af því það er með alvöru miðherja í Marc Gasol. Við höfum örugglega haft orð á því áður, en að okkar mati hefur Memphis flest það sem úrvalsklúbbur þarf að hafa og því ætti þetta lið þá ekki að ná langt og lengra?
Húnarnir eru með flottan leikstjórnanda í Mike Conley sem er sífellt að bæta sig. Þarna er stór framlína sem frákastar vel, eitraður maður á póstinum í Z-Bo og frábær miðherji í Marc Gasol. Þá hefur breiddin aukist og öll lið verða svo að vera með varnarspesíalista eins og Tony Allen.
Fjölhæfasti leikmaður liðsins, Rudy Gay, hefur svo byrjað leiktíðina nokkuð vel og það er auðvitað hann sem er lykilmaðurinn á bak við velgengni Grizzlies. Ef hann getur orðið brúklegur neyðarkall, er ekkert sem segir að Memphis geti ekki farið í úrslit Vesturdeildarinnar.
Memphis gleymdist dálítið í fyrra og var það mikið til vegna meiðsla Zach Randolph sem liðið náði ekki að fylgja eftir velgengni ársins á undan. Vonandi verður ekkert svoleiðis vesen uppi á teningnum hjá liðinu í vetur og þá er ljóst að enginn vill mæta þessu liði í úrslitakeppni. Memphis er að eignast nýja stuðningsmenn á hverjum degi og er það vel. Þið getið talið okkur á meðal aðdáenda þessa skemmtilega liðs.
Efnisflokkar:
Áskorendur
,
Framfarir
,
Grizzlies