Wednesday, November 28, 2012
Flensuleikurinn dugði ekki
Auðvitað kom Indiana með einn flottan sigur til að fylgja eftir ristlinum sem við skrifuðum um liðið hérna á dögunum. Auðvitað fór Indiana til Los Angeles og lagði jójólið Lakers 79-77.
George Hill var óhemju svalur í lokin og skoraði tvær síðustu körfur Indiana, sitt hvoru megin við stóran þrist frá Kobe Bryant sem lyfti honum í 40 stigin þrátt fyrir flensu.
Það er tíska að spila vel með flensu, rétt eins og að binda mönnum helskó til að ganga á til Valhallar.
Kobr Bryant hefur nú skorað 40 stig eða meira 114 sinnum á ferlinum. Hitti 12 af 28 skotum í nótt, hirti 10 fráköst og tapaði 10 boltum.
Verst að Lakers hafi tapað leiknum. Þú vinnur ekki þegar þú tapar 19 boltum og klikkar á tuttugu vítum. Tuttugu! Þar af var Dwight Howard 3 af 12. Þetta á ekki að vera hægt.
Það er ekkert að marka þetta Lakers-lið fyrr en Nash kemur aftur og liðið nær að spila sig saman.
Það er reyndar langt í það, en stóra spurningin er líka hvort meiðslastandið á þessum fuglum kemur yfir höfuð til með að leyfa þeim að stilla saman strengi.
Ef þú heldur að Dwight Howard hafi verið dómínerandi í leiknum með 17 stig og 8 fráköst, bíddu þá þar til þú heyrir hvað Roy Hibbert gerði. Stjörnuleikmaðurinn sá skilaði 8 stigum og 5 fráköstum á hvorki meira né minna en 18 mínútum áður en hann fékk sjöttu villuna.
Þvílíkir kálfar, gungur og lyddur.
Lakers verður því eitthvað áfram með lakari árangur en Charlotte Bobcats.
Efnisflokkar:
Dwight Howard
,
George Hill
,
Kobe Bryant
,
Lakers
,
Pacers
,
Roy Hibbert