Friday, October 5, 2012
Fjölmiðladagurinn: Lakers
Lakers stal fyrirsögnunum í sumar með því að fá til sín Dwight Howard (loksins) og Steve Nash. Þó það nú væri að eitthvað væri skrifað um það.
Þessi mannskapur hjá Lakers lítur ansi hreint vel út á pappírunum, en við erum hrikalega svartsýn á hvernig þetta á eftir að ganga þegar liðið byrjar að spila körfubolta.
Einhverjir hafa áhyggjur af því að Dwight Howard og Pau Gasol geti ekki spilað saman.
Því erum við alls ekki sammála, þeir gætu einmitt átt eftir að svínvirka saman, Howard niðri á blokkinni og Gasol á háa póstinum, dælandi góðum sendingum sínum.
Það sem við skiljum hinsvegar ekki, er jafnan Kobe Bryant, Mike Brown, Princeton sóknin og Steve Nash.
Við erum hreint ekki viss um að Kobe sé tilbúinn að leika fallega við hina krakkana, sérstaklega nú þegar er kominn lítill hvítur krakki í sandkassann hans sem þarf helst að fá að leika dálítið með dótið hans Kobe svo liðinu gangi vel. Svo er nýi krakkinn í miðjunni líka helvítis dramadúkka og fer alltaf að grenja ef honum finnst hann ekki vera aðalnúmerið í leiknum.
Kobe Bryant er líka mannlegur og tölurnar hans ljúga engu um það heldur. Bryant er kominn yfir sitt besta, enda búinn að spila óguðlegar mínútur síðustu ár. Vandamálið er ekki það að hann skuli vera farinn að slá aðeins af. Vandamálið er hvort hann sættir sig við það. Við höfum dálitlar áhyggjur af því.
Lakers vinnur fullt af körfuboltaleikjum í vetur, en við sjáum þetta lið ekki vinna meistaratitil. Varnarleikurinn og breiddin eru einfaldlega ekki til staðar til þess. Nokkuð augljósir veikleikar. Þýðir það að við munum ekki stilla á Lakers-leiki í vetur? Hreint ekki. Hreint ekki. Það verður gaman að horfa á Lakers. Frábært, líklega.
Efnisflokkar:
Fjölmiðladagurinn
,
Lakers