Wednesday, September 19, 2012

Allir verða á Úlfavaktinni


Það er ekki nokkur vafi hvaða lið verður "League-Pass-lið" vetrarins í NBA deildinni, það er að segja liðið sem flestir fylgjast næstmest með, fyrir utan sitt uppáhaldslið. Það verður sama lið og á síðustu leiktíð, Minnesota Timberwolves.

Það vill reyndar svo bölvanlega til að spænska undrabarnið Ricky Rubio verður ekki tilbúið í slaginn fyrr en nokkuð líður á veturinn vegna slæmra meiðsla sem hann varð fyrir á síðustu leiktíð. Liðið verður spennandi í vetur og óhemju spennandi þegar líður að vori og leikstjórnandinn Rubio dettur inn aftur.

Minnesota var í Spútnik-gírnum allt þar til Rubio meiddist á síðustu leiktíð og er reynslunni ríkara.

Nú hefur Úlfunum líka borist liðsstyrkur, sem reyndar er ómögulegt að segja til um hvort kemur að gagni.

Brandon Roy, fyrrum skotbakvörður Portland Trailblazers og Andrei Kirilenko fyrrum leikmaður Utah Jazz bætast í þegar áhugaverðan hóp Minnesota í vetur. Báðir þessir leikmenn eru mjög hæfileikaríkir en hafa verið óheppnir með meiðsli.

Kirilenko spilaði í heimalandi sínu Rússlandi síðasta vetur og fór þar á kostum, bæði með félags- og landsliðum sínum. Brandon Roy var eins og flestir muna búinn að leggja skó sína á hilluna vegna meiðsla, en hefur á einhvern undarlegan hátt ákveðið að snúa aftur þó hnén á honum séu í raun bæði ónýt.

Þegar Roy er við sæmilega heilsu, er hann af mörgum álitinn þriðji besti skotbakvörður heimsins á eftir þeim Kobe Bryant og Dwyane Wade, svo það er kannski skiljanlegt að Minnesota taki sénsinn á honum.

Fari svo að tímabilið í vetur verði nokkuð eðlilegt og forráðamenn Minnesota finna enga fjögurra eða fimm laufa smára í bakgarðinum hjá sér, munu báðir þessir leikmenn verða í bullandi vandræðum með meiðsli í allan vetur. Sérstaklega Roy, sem bara á ekki að geta spilað sem atvinnumaður í körfubolta með þessi ónýtu hné.

Ef Úlfarnir verða hinsvegar bænheyrðir og ofangreint par heldur heilsu, á þetta lið nánast takmarkalausa möguleika í baráttunni.

Kevin Love er trúlega besti kraftframherjinn í heiminum í dag og Ricky Rubio er frábær leikmaður, miklu betri en við áttum von á - sérstaklega í vörninni. Rick Adelman þjálfari er í hópi bestu þjálfara deildarinnar og tröllið Pekovic hefur komið mikið á óvart í miðjunni.

Bætum svo við þetta æstum og ört vaxandi aðdáendahóp og hinum spennandi Alexey Shved frá Rússlandi og við erum komin með mest spennandi lið vetrarins í NBA.

Hann verður þétt setinn bekkurinn á Úlfavaktinni í vetur, það er öruggt.

Sjáðu bara:

PG - Ricky Rubio
SG - Brandon Roy
SF - Andrei Kirilenko
PF - Kevin Love
C  - Nikola Pekovic

Þetta er bara hörkulið ef allir eru sæmilega heilir. Stórt ef, en samt.

Téður Shved verður svo á bekknum þar sem Chase Budinger frá Houston og Greg Stiemsma frá Boston verða líka í vetur. Þá getur Derrick Williams ekki annað en bætt sig eftir að hafa valdið gríðarlegum vonbrigðum á síðustu leiktíð.

Skrumið verður mikið í kring um Úlfana í vetur, en það eru ástæður fyrir því.

Það verður til dæmis ekki leiðinlegt að sjá hugmyndaríka sóknarmenn á borð við Rubio og Kirilenko læða sér daglega á tilþrifalista með skemmtilegum sendingum.

Veikleikar Wolves síðasta vetur voru varnarleikurinn og afleit frammistaða vængmanna.

Kirilenko, Roy og Shved hjálpa sannarlega til í þessu.

Þá er ekki síður mikilvægt að Minnesota hefur hægt og örugglega verið að losa sig við rugludalla og leikmenn sem kunna ekki körfubolta að undanförnu. Þar koma nöfn eins og Darko Milicic upp í hugann.

Þó útlitið sé bjart hjá Úlfunum, er það þó ekki eintómt sólskin. Það eru ekki mörg frábær lið í Vesturdeildinni, en hellingur af góðum liðum, sem eru slæm tíðindi fyrir Minnesota.

Meiðsli Ricky Rubio gera það að verkum að liðið á að öllum líkindum eftir að verða í vandræðum framan af vetri og það eitt getur nægt til að fella það nánast úr leik í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni.

Við skulum þó vona að svo verði ekki. Það halda allir með Úlfunum í vetur.