Monday, June 4, 2012

Miami fær harða dóma í dag


Boston er búið að jafna metin í einvíginu við Miami í 2-2. Við höfum ekki nema nokkur atriði um það að segja og þau eru öll frekar neikvæð. Biðjumst velvirðingar á þessum leiðindum fyrirfram og líklega er best fyrir þig að hætta bara að lesa núna ef þér er illa við leiðindi.

En hvað í fjandanum er Miami að gera í þessu einvígi?

Margir höfðu áhyggjur af því að leið Miami í úrslitin 2012 yrði erfið - og það af því Chicago yrði með sterkara lið en í fyrra. Ekki Boston. Boston er lið sem á að hafa verið á hægri niðurleið síðan árið 2009.

Boston var farið að leggja drög að því að brjóta upp meistaraliðið 2008 og meira að segja byrjað á því þegar það skipti Kendrick Perkins í burtu. Boston-liðið sem er að berjast við Miami í dag nýtur ekki góðs af þeim skiptum, því leikmaðurinn sem það fékk fyrir Perkins (Jeff Green) er ekki að spila (hjartað).

Kevin Garnett er 36 ára gamall og er búinn að spila 55.000 mínútur!
Ray Allen er meiddur á ökkla
Paul Pierce er meiddur á hné
Það er engin breidd í liði Boston

Verðum að gefa gömlu hundunum í Boston smá kúdós fyrir hörkuna og viljann. Þeir eru að spila reglulega vel og eiga ekkert nema hrós skilið. En ef Miami væri alvöru lið, myndi það slátra Boston. Slátra þeim!

Nú gæti einhver byrjað með afsakanir og bent á að Chris Bosh sé meiddur hjá Miami, en okkur er bara fjandans sama. Liðið saknar hans ekki (afturendi)! Bosh er ágætur í að klára skot í kring um körfuna ef hann fær góðar sendingar og fínasta stökkskytta. Annað gerir hann ekki. Hann er vonlaus frákastari og dúkkulísa í baráttunni.

Auðvitað er þetta á James og Wade. James hefur verið nokkuð stöðugur í úrslitakeppninni og við erum farin að sjá hvað við fáum frá honum. Hann er gangrýndur meira en flestir íþróttamenn á jörðinni, en hann spilar nú samt oftast vel - amk í 45 mínútur í leik þangað til komið er fram í lokaúrslit.

Þetta er á Wade.

Dwyane Wade spilaði eins og aumingi þegar Miami lenti 2-1 undir í seríunni gegn Indiana. Þá fór hann og lét tappa vökva af hnénu á sér og spilaði eins og ofurmenni þangað til búið var að hrinda Pacers úr veginum.

Í seríunni gegn Boston hefur hann hinsvegar komið niður á jörðina aftur. Hann hefur ekki verið æpandi lélegur, en hann hefur alls ekki verið líkur sjálfum sér og þess vegna er staðan jöfn 2-2.

Það eru ekki nema nokkrir dagar síðan við sáum Ofur-Wade gera grín að Indiana og gera það sem honum sýndist.

Er hann að gera það þegar hann er í gæslu Ray Allen, sem er ekki aðeins kominn á aldur, heldur spilandi á annari löppinni?

Nei.

Þess vegna er 2-2 og þess vegna er þetta sería.

Þetta á ekkert að vera sería. Ef Miami væri alvöru lið, hefði það unnið leikinn í nótt og myndi loka þessu heima í leik fimm.

Miami er bara ekki alvöru lið.

Ekki enn og ekki svona.

Og hvað verður þá um liðið í framtíðinni, ef Wade er búinn að gefa því sín bestu ár?