Wednesday, June 6, 2012
Hver missti vinnuna í kvöld?
Það er freistandi að koma með sleggjur eftir hvern einasta leik þegar svona mikið er undir. Við höfum aldrei hugmynd um hvar við munum enda þegar við byrjum að skrifa. Aðeins óljósa stefnu, grunnpælingu, sem oft fýkur reyndar út í buskann og verður að engu.
Og hvað vitum við eftir leik fimm í úrslitum austurs og vesturs?
Í vestrinu vitum við að San Antonio er allt í einu orðið bensínlaust og finnur ekki svör við Sefolosha á Parker. Það ætti að verða óhemju erfitt verkefni fyrir Oklahoma að slá San Antonio út, en við höfum á tilfinningunni að Spurs séu búnir að fatta að þeir muni ekki vinna þetta lið.
Venjulega myndu allir tippa á Gregg Popovich þegar sería er komin vel af stað. Þar er hann venjulega í essinu sínu og tekur lið úr úr öllu því sem þau vilja gera. En hann getur það ekki gegn OKC. Þeir eru bara of fljótir, of snöggir, of sterkir, of ungir og of fjandi góðir.
Austanmegin er komin upp nákvæmlega sama staða og í vestrinu eftir að liðið sem var ekki með heimavallarrétt vann fimmta leik á útivelli og sneri dæminu sér í vil. Eini munurinn á þessu er að gömlu hundarnir voru "litla" liðið í austrinu, en þeir höfðu heimavöllinn í vestrinu (Spurs).
Við skulum öll nota þetta tækifæri til að samgleðjast stuðningsmönnum Boston Celtics sem eru ófáir á Íslandi. Mikið hlýtur að vera stórkostlegt að horfa á það sem verður að teljast síðasti dansinn hjá þeim Rondo, KG, Allen og Pierce.
Þetta hefur oft á tíðum verið dálítið ljótt hjá Boston, svona eins og að horfa á Gussa í Fóstbræðrum og Egil Helga í sleik.
En það er ekki hægt annað en taka ofan fyrir gömlu meisturunum. Þeir eru þegar komnir fram úr björtustu vonum flestra ef ekki allra.
Á meðan okkur þykir full ástæða til að hrósa Boston, er ekki hægt annað en að segja nokkur vel valin orð um andstæðingana. Miami ruslaði Boston út úr úrslitakeppninni í fyrra með nokkuð sannfærandi hætti, en Boston til varnar var Rajon Rondo þá mikið meiddur og án hans gerir liðið ekkert fullorðins.
Vefur eins og NBA Ísland er byggður til að gefa út asnalegar yfirlýsingar sem frekar eru byggðar á tilfinningu en rökum - og ekki er verra ef yfirlýsingarnar bíta svo ritstjórnina í rassgatið. Lesendur hafa gaman af því. Við ætlum að koma með eina slíka hérna:
Erik Spoelstra missti vinnuna í kvöld.
Spoelstra hefur verið undir gríðarlegri pressu síðan hann tók við Miami, ekki síst eftir að heilaga þrenningin - Sólstrandagæjarnir - urðu til. Enginn þjálfari í NBA hefur verið undir pressu eins og Spoelstra.
Stóllinn hans Mike Brown hjá Lakers fer að hitna næsta vetur, en enn og aftur, það er ekkert miðað við Spoelstra.
Það er ómögulegt að segja hvað gerist i þessu einvígi. Gæti þess vegna alveg verið að Miami kæmi til baka og kláraði seriuna. Það breytir því ekki að Spoelstra missti starfið í kvöld. Þú tapar ekki svona leikjum á heimavelli og Spoelstra var útþjálfaður af Doc Rivers. Það er ekki séns að Spo haldi starfinu eftir þetta og aðeins meistaratitill lengir í snörunni hjá honum.
Miami þarf þjálfara sem heimtar og fær 100% virðingu leikmanna liðsins. Ekki mann til að sækja kaffi handa LeBron James.
Spoelstra á eftir að hafa vinnu í NBA næstu 30 árin, ekkert mál, en hann ræður ekki við að þjálfa þetta mjög svo illa samsetta lið.
Það er meira að segja freistandi að koma með yfirlýsingar varðandi Miami-liðið, en við ætlum að láta skynsemina ráða í þetta skiptið.
Segið okkur bara hvar, hvenær og hvernig allir þessir titlar sem Miami ætlaði að vinna koma.
Álit okkar á liðinu er í lágmarki núna. Chris Bosh var fjarri því eins mikið meiddur og auglýst var. Allt sem við höfum heyrt og lesið um meiðsli hans bendir til þess að hér séu alvarleg meiðsli á ferðinni. Bosh hinsvegar sló ekki feilpúst þær mínútur sem hann spilaði í kvöld og hirti ekki nema sex sóknarfráköst á 14 mínútum!
Við sögðum ykkur að þetta skrifaðist á Wade og við stöndum við það. LeBron James og aukaleikarar Miami eiga skilið að fá skammir, en við ætlum að beina úrgangnum í átt til Spoelstra og Wade.
Það leggur óþef af Dwyane Wade. Óþef af meiðslum, sem hann og Miami menn þora/vilja ekki auglýsa.
Wade spilaði illa framan af í einvíginu gegn Indiana og eftir skelfilegan fimm stiga og 2 af 13 leik í þriðju viðureign liðanna fór kappinn og lét tappa vökva af hnénu á sér.
Okkur langar að vita meira um þessa aftöppun. Og vita hvort hann var ef til vill sprautaður í leiðinni. Framhaldið hjá honum myndi nefnilega "meika sens" ef svo væri.
Wade var með 33 stig að meðaltali í síðustu þremur leikjunum gegn Indiana, en hefur heldur betur komið niður á jörðina með 22 stig og 45% skotnýtingu gegn Boston.
Þetta er bara lélegt. Sorry. Wade á að gera allt vitlaust á móti Boston og hann veit það sjálfur. Við sjáum aðeins eina og eina rispu frá honum í þessu einvígi - hann tekur aldrei yfir leikinn og dómínerar eins og hann gerði nánast í hverjum leik hérna í denn. Það er með ólíkindum. að hann skuli ekki nýtast Miami betur en þetta á þessum viðkvæma tímapunkti.
Þið sem voruð að furða ykkur á því hvernig LeBron James fagnaði sigrinum á Boston í úrslitakeppninni í fyrra (sjá mynd til hliðar) áttið ykkur kannski á því núna af hverju.
LeBron hafði jú ekki náð að slá risann út áður og það var honum þvi mjög sérstakt að vinna þetta einvígi.
En honum var fyrst og fremst létt að komast fram hjá þessum erfiða andstæðingi. Það er með ólíkindum að Boston skuli vera svona sterkt lið enn í dag, þó allir hafi talað um að þeir séu of gamlir allar götur síðan 2009. Mönnum ber að taka þetta lið alvarlega meðan leikmennirnir draga andann og standa í lappirnar.
Það er best að sjá hvað kemur út úr þessum undanúrslitum áður en við látum sleggjuna skella í gólfið.
En mundu að Spoelstra er búinn og Miami þarf að öllum líkindum að gera rótttækar breytingar nánustu framtíð. Það er dálítið þannig.
Efnisflokkar:
Celtics
,
Dwyane Wade
,
Erik Spoelstra
,
Fjórir fræknu
,
Heat
,
LeBron James
,
Úrslitakeppni 2012
,
Þjálfaramál