Tuesday, June 12, 2012

Atriðið sem ræður úrslitum:


Þú færð enga spá frá okkur fyrir úrslitaeinvígið. Komið nóg af svoleiðis vitleysu. Í staðinn ætlum við að taka saman nokkur atriði sem skipta munu máli í rimmu Oklahoma og Miami.

Oklahoma er beittara sóknar- og líklega frákastalið, meiðslafrítt, óþreytt, með heimavöllinn, meiri sprengikraft og er yngra og vitlausara. Allt hlutir sem geta unnið með liðinu.

Miami er betra varnarlið, er með meiri reynslu og er mjög hungrað í titil eftir bitra reynslu í fyrra. LeBron James er auðvitað hungraðasti maður í heimi og er búinn að bíða ansi lengi eftir titli.

Þótt ótrúlegt megi virðast, er Miami líka risastór underdog í veðbönkum og það hjálpar þeim. Hjálpar til við að losa pressu af James.

Það eru samt nokkrir hlutir sem eru ekki að vinna með Miami og nokkra þeirra verður erfitt að leysa.

Fyrsta atriðið, er hvorki meira né minna en atriðið sem ræður því hvort liðið verður meistari.

Hvað getur Dwyane Wade beitt sér mikið í úrslitaeinvíginu?

Wade er meiddur á hné, það er ekkert leyndarmál, en fjölmiðlar hafa alls ekki gert mikið úr því.

Við sáum það hve mikil áhrif meiðslin höfðu á Wade í fyrstu leikjunum gegn Indiana. Svo var tappað af hnénu á honum og hann fékk sprautu - og allt í einu var gamli góði Dwyane Wade kominn aftur. Það var ekki að sökum að spyrja. Miami rústaði Indiana.

Miami hefði ekki unnið Boston Celtics án Dwyane Wade, en hann hefur samt verið óralangt frá því að vera á fullum styrk. Til að útskýra þetta á nákvæmari hátt er hægt að segja að Wade hafi verið 65% af sjálfum sér í Boston leikjunum.

Það verður ekki nóg gegn Oklahoma og þess vegna skiptir það öllu máli hvað læknarnir ná að tjasla honum saman í seríunni. Hann verður að spila flesta leikina sem næst 100% - annars á Miami ekki séns. Þá þarf ekkert að ræða önnur atriði í einvíginu.