Friday, December 23, 2011

Verðlaunahafar komandi leiktíðar í NBA


Við hérna á NBA Ísland elskum að gera okkur að fíflum þegar kemur að því að útbúa spár. Nú hefur nefnd sérfræðinga ESPN birt spá sína og tippað á þá leikmenn sem hún telur að vinna muni til verðlauna eftir deildakeppnina næsta vor. Við ákváðum að apa þetta eftir og koma með okkar eigin útgáfu af þessari vitleysu. Hér kemur Völvuspáin 2011 frá NBA Ísland.

VERÐMÆTASTI LEIKMAÐURINN:

LeBron James, Miami. Eftir harða baráttu við Kevin Durant. Þessir verða í sérflokki í einvíginu um þessa eftirsóttu nafnbót í ár. Það er í tísku að tippa á Chris Paul í þessum flokki en það er glórulaust. Til þess vinna Clippers ekki nógu marga leiki. Lebron tekur Durant á þremur atkvæðum eftir að hafa leyft sér að brosa aðeins oftar en á síðustu leiktíð. Maðurinn er einfaldlega besti leikmaður deildakeppninnar og verður formlega útnefndur það í vor.

NÝLIÐI ÁRSINS: 

Kyrie Irving, Cleveland. Við höfum lítið sem ekkert fyrir okkur í þessu. Stráknum verður kastað út í djúpu laugina og það er ekki langt síðan Byron Scott mótaði frábæran ungan leikstjórnanda niðri í New Orleans. Þessi er ekki eins góður, en hann fær að gera fullt af dýrmætum mistökum í vetur.

ÞJÁLFARI ÁRSINS: 

Vinny Del Negro, LA Clippers. Þjálfarar liðanna sem verða að berjast á toppnum eru búnir að hljóta þessa mjög svo umdeildu nafnbót, svo það eru líkur á því að það verði spútnikþjálfari í ár. Spoelstra hjá Miami gæti fengið þetta ef Miami vinnur mikið af leikjum, en við ætlum að setja allt okkar traust á Vinny Del Negro.

Clippers-liðið mun vinna eitthvað í grennd við 42 leiki í vetur og sú bæting frá fyrra ári fer ekki fram hjá staurblindri dómnefndinni. Verðlaunaflokkur sem sá ekki sóma sinn í því að velja Jerry Sloan þjálfara ársins svo mikið sem einu sinni er annars ekki þess verðugur að eyða miklum tíma í hann.

VARNARMAÐUR ÁRSINS:

Dwight Howard, Orlando. Howard er fínn varnarmaður, það má hann eiga, en hann hefur ekki fengið neina samkeppni í þessum málaflokki undanfarin ár og fær hana heldur ekki í bráð. Búið að pensla strákinn í þetta.

Skrumvélin í New York er auðvitað búin að missa það gjörsamlega í kjölfar þess að Tyson Chandler flutti í Stóra Eplið. Skrumið eitt og sér á eflaust eftir að nægja til að hengja mörg atkvæði á Chandler, en af hverju á hann allt í einu að fara í bullandi samkeppni um titilinn Varnarmaður ársins bara af því hann fer til New York? Það hefði enginn minnst á þetta ef hann hefði farið til Milwaukee eða Portland.

Chandler á eftir að hafa nóg að gera í teignum við að hreinsa upp skítinn eftir framherjana sína, en ekki nóg til að vinna til þessara verðlauna. Howard á þau um ókomin ár, hvort sem hann á það skilið eða ekki.

SJÖTTI MAÐUR ÁRSINS:

James Harden, Oklahoma. Margir hafa stokkið á James Harden bandvagninn í þessu kjöri og við ætlum að gera það líka. Drengurinn á inni og nú er kominn tími til fyrir hann að sanna hversu góður hann er. Harden er nákvæmlega það sem skilur á milli Óskars og Ófeigs í liði Oklahoma. Þetta lið getur farið alla leið ef hann nær að toppa sem leikmaður.

FRAMFARAKÓNGUR ÁRSINS:

Derrick Favors, Utah. Favors var duglegur að æfa í sumar, er búinn að ná áttum eftir vistaskiptin á síðustu leiktíð og er að skilja hvað það þýðir að vera atvinnumaður í körfubolta.

Það er mál manna að pilturinn sé sem nýr maður og hann á eftir að fá nóg af mínútum. Þessi stæðilegi strákur hefur mikla hæfileika og þó liðið hans geri ekki rósir í vetur, munu menn taka eftir stóru stökki hjá honum.  Við hefðum líka tippað á Evan Turner hjá Philadelphia, en það er óvíst að hann fái nógu margar mínútur til að springa almennilega út hjá Sixers að svo stöddu.

Þá vitið þið það elskurnar. Það verður dásamlegt að éta þetta allt ofan í sig í vor.