Monday, December 19, 2011
Spútniklið Los Angeles Clippers:
Það er hálf skrítið að sjá svona höfðingja í búningi Los Angeles Clippers.
En við fögnum komu þeirra eins og flestir. Gleði okkar væri fullkomlega ósvikin, ef ekki væri fyrir þá staðreynd að eigandi félagsins er skíthæll.
Clippers-liðið á eftir að verða flott í vetur, en enginn getur sagt til um það hversu sterkt það verður.
Það er mál manna að Chris Paul hafi upp á sitt einsdæmi gert miðlungslið Hornets að góðu liði. Hann ætti því að geta lagað vinningshlutfallið hjá Clippers eitthvað.
Það að slútta leikjum hefur verið eitt af stóru vandamálunum hjá liðinu á undanförnum árum. Chris Paul á eftir að laga þetta og sjá til þess að liðið verður daglegur gestur í tilþrifaþáttum í sjónvarpi.
Það verður rosalega spennandi að sjá hvernig Clippers spjara sig í vetur.
Bjartsýnustu menn segja að Clippers séu búnir að taka fram úr Lakers og séu með lið sem getur gert atlögu að meistaratitli. Þessir menn ættu kannski að vera aðeins rólegir.
Menn eins og Chris Paul og Chauncey Billups sætta sig hinsvegar ekki við neitt minna en 50-60% vinningshlutfall og sæti í úrslitakeppni á fyrsta vetrinum.
Fyrsti kaflinn sem skrifaður verður í þessu Clippers-ævintýri í vetur á eftir að snúast um það hvort Vinny Del Negro heldur lífi sem þjálfari liðsins.
Del Negro er strax kominn með stóra skotskífu í andlitið á sér eftir að Clippers fengu þennan liðsstyrk og fjölmiðlar verða fljótir að biðja um hausinn á honum ef liðið byrjar illa.
Del Negro er ekki sterkasti þjálfarinn í deildinni, það liggur í augum uppi. Hann þarf því að sanna sig og vera fljótur að því.
Enginn veit hvernig þetta mun allt saman smella saman hjá Clippers í vetur.
Því ákváðum við að taka saman smá lista yfir atriði sem þurfa að ganga upp svo liðið geti staðið undir einhverjum af þessum væntingum.
* Vinny Del Negro þarf að sjá til þess að liðið byrji vel og þjálfa betur en nokkru sinni.
* Liðið þarf að finna varanlega lausn í skotbakvarðarstöðuna. Það er varla Billups.
* Liðið þarf að sleppa sæmilega við meiðsli. Langt síðan það gerðist síðast.
* Caron Butler verður að eiga eitthvað eftir af seiglusafanum sínum
* Billups þarf að spila betur en hann gerði með Knicks.
* DeAndre Jordan þarf að bæta sig á sama hraða og vinur hans Blake Griffin.
* Liðið þarf að finna sig í varnarleiknum. Sóknin verður ekkert mál, en til að liðið nái árangri, þarf
það að búa sér til konsept í vörninni sem allir kaupa og fylgja.
Þetta er langur og leiðinlegur listi, en ef liðið byrjar vel, sleppur við alvarleg meiðsli og klárar sig af síðasta atriðinu á listanum - verður þetta flottur vetur hjá Clippers.
Efnisflokkar:
Clippers