Saturday, December 3, 2011
Auðmýkt í vesturbænum
Auðmýkt er líklega ekki fyrsta orðið sem kemur upp í hugann á fólki þegar það er beðið að lýsa Knattspyrnufélagi Reykjavíkur.
KR bauðst til að hýsa undanúrslit og úrslit í Lengjubikarnum í ár og auðvitað reiknuðu menn þar á bæ með að KR yrði á meðal hinna fjögurra fræknu. Svo var þó ekki að þessu sinni og fyrir vikið vantaði talsvert upp á stemninguna í DHL höllinni á undanúrslitakvöldinu. Enginn fíraði upp í grillinu, Palli var ekki á mæknum og svo framvegis. Skiljanlegt auðvitað.
En KR-ingar tóku heldur betur þátt í tvíhöfðanum þó liðið væri ekki að spila. Leikmenn meistaraflokks KR skiptu með sér verkum á ritaraborðinu í báðum undanúrslitaleikjunum. Það var mátulegt á þá úr því þeir komust ekki í undanúrslitin. Þetta kennir þeim auðmýkt og er fín leið til að rifja upp hvernig þetta var þegar þeir voru guttar. Þeir virtust ekki hafa neitt á móti þessu piltarnir og gerðu þetta með bros á vör.
Það sem okkur þótti hinsvegar skemmtilegast, var að sjá hvernig Hrafn Kristjánsson þjálfari KR tók að sér eitt mikilvægasta hlutverkið á vellinum - að vera á moppunni. Þetta þótti okkur óhemju gaman að sjá. Auðmýkt er að verða horfin úr íslensku samfélagi og það er eitt af því sem við þurfum öll að laga. Þetta uppátæki Hrafns er til eftirbreytni. Svona sjáum við bara í körfuboltanum.
Segðu hvað sem þú vilt um KR-inga, en þeir kunna að sýna auðmýkt. Það gera alvöru meistarar.
Efnisflokkar:
KR
,
Lengjubikarinn