Thursday, December 15, 2011

Allt er þegar þrennt er


Clippers borguðu mjög hátt verð fyrir sinn mann, Chris Paul. Skítalyktin af þessu máli öllu saman á ekki eftir að hverfa í bráð. Það er með ólíkindum hvað deildin hefur drullað á sig með rekstrinum á New Orleans Hornets.

En við skulum ekki velta okkur upp úr einhverri neikvæðni. Sú staðreynd að Chris Paul er á leiðinni til LA Clippers þýðir að þar er mögulega að verða til skemmtilegasta lið deildarinnar. Það verður algjör veisla að fylgjast með Paul dæla sendingum á menn eins og DeAndre Jordan og Blake Griffin, sem voru í 2. og 3. sæti yfir flestar troðslur í deildinni á síðustu leiktíð. Og þá voru þeir ekki einu sinni með almennilegan leikstjórnanda.

Það fer dálítið í taugarnar á okkur að Clippers hafi samþykkt að láta Eric Gordon til Hornets í þessum skiptum. Gordon er einn vanmetnasti leikmaður deildarinnar og hefði án efa notið góðs af því að spila með Chris Paul. Þess í stað er hann horfinn á braut og enginn eiginlegur skotbakvörður eftir í Clippers-liðinu. Það verður leyst með einhverjum hætti, en það kemur enginn í staðinn fyrir Gordon.

Burt séð frá því hvað verður gaman að horfa á Clippers spila, verður nú áhugavert að sjá hvort liðið á eftir að geta eitthvað í vetur. Það verður að teljast líklegt, en það er ekki auðvelt að breyta slöku liði í stórlið í einni andrá - jafnvel þó maður fái Chris Paul. Það tekur tíma að slípa þetta til og væntanlega þurfa Clippers að losa sig við eins og átján leikstjórnendur. Og hvað fá þeir frá Caron Butler?

Mörgum spurningum ósvarað, en mikið óskaplega verður gaman að horfa á Clippers spila í vetur.