Saturday, July 9, 2011
Yao Ming hefur ekki atvinnu af því að spila körfubolta
Er það bara við, eða eru allir að hætta?
Kínverjinn Yao Ming tók sig til í gær og lagði risavaxna skó sína á hilluna frægu eftir langa og erfiða glímu við meiðsli.
Ekki hægt annað en að finna til með þrítugum piltinum.
Grábölvað að þurfa að hætta að spila á besta aldri. Yao var heilsuhraustur fyrstu árin sín í deildinni en undanfarin ár hafa verið vægast sagt ömurleg fyrir hinn 230 sentimetra háa og 140 kílóa þunga miðherja.
Fréttamiðlar slá í takt þegar kemur að umfjöllun um þetta leiðinlega mál og tala fyrst og fremst um Yao sem góðan dreng og sendiherra NBA deildarinnar í Kína - manninn sem opnaði dyrnar að Asíu og fjölmennasta markaði veraldar.
En hann kann líka að spila körfubolta og gerði það vel, en það er kannski ástæða fyrir því að blaðamenn voru ekkert að fara dýpra í körfuboltahliðina á tíðindum gærdagsins.
Eins og sagan hans Yao er áhrifamikil utan vallar, er hún ekki alveg jafn glæsileg innan hans.
Nú byrjum við auðvitað strax að fá tak í meðvirknina okkar en það verður bara að segjast eins og er að ferill Yao Ming í NBA er nú engin flugeldasýning.
Strangt til tekið hefði hann átt að gera miklu meira.
Yao Ming var alltaf sinn harðasti gagnrýnandi og ekki verður sagt að pilturinn hafi ekki lagt sig fram. Hann var frábær sóknarmaður, sterkur, góð skytta og var með ágæta sendigetu - hæfileika sem hann var ekki feiminn við að nota enda fullkomlega óeigingjarn.
Fyrir utan það hve brothættar lappirnar á honum voru síðustu árin hans í deildinni, var hann alltaf í vandræðum með úthaldið. Það er auðvitað ekkert grín að skottast um með alla þessa hæð og þyngd. Og þessi sama hæð og þyngd hjálpaði Yao ekki í varnarleiknum. Hann var ákaflega seinn á fæti og því átti framlag hans í sókninni oft til að núllast út á hinum enda vallarins. Þá hefði hann alveg mátt vera töluvert grimmari þó hann væri alltaf duglegur.
Þegar við fórum að rifja upp feril Yao Ming, mundum við ekki betur en að hann hefði verið 20/10 maskína lengst af á ferlinum, en það er aldeilis ekki þannig.
Yao skoraði aðeins þrisvar yfir 20 stig að meðaltali í leik og náði aðeins tvisvar að skríða yfir tíu fráköst.
Eitthvað af þessu skrifast kannski á stuttan spilatíma, en til gamans má geta að Hakeem forveri hans Olajuwon hjá Houston var með tíu fleiri 20+ stiga tímabil á ferlinum og líka tíu fleiri 10+ tímabil í fráköstum.
TÍU fleiri. Það er er með ólíkindum.
Þetta var deildakeppnin, en það er venjulega í úrslitakeppninni sem ferilskrár stjörnuleikmanna eru skrifaðar.
Þar var fátt um fína drætti hjá Yao eins og frægt er orðið, en hann náði þó að drattast í aðra umferð einu sinni. Það var ekki fyrr en Tracy McGrady meiddist sem liðið komst þangað eftir að hafa fallið úr leik í fyrstu umferð sex sinnum í röð.
Það má kannski taka upp hanskann fyrir Yao og benda á að hann hafi aldrei spilað með almennilegum leikstjórnanda, en Houston var undantekningalaust með fína þjálfara í tíð Yao (Rudy Tomjanovich, Jeff Van Gundy og Rick Adelman) og þokkalegasta mannskap.
Það er ljótt að vera með svona leiðindi út í jafn ljúfa pilta og Yao Ming en svona er þetta bara á þessu leveli. Þú annað hvort skilar hlutum í hús eða færð að heyra það og pressan er alltaf til staðar. Sjáið bara hvað Jeff Van Gundy sagði um Yao í samtali við Yahoo! í gær:
“People forget that when Dwight Howard and Yao were young, that was a mismatch. An utter mismatch. Yao scored on him at will. Give Howard credit, because he’s gotten a lot better, but there’s no doubt if Yao had remained healthy, he’d still be the best center in basketball.”
Það er út af svona ummælum sem við erum svona vond við Yao. Hann átti að heita besti miðherji heimsins en náði aðeins einu sinni að skríða í aðra umferð úrslitakeppninnar þegar hann var heill.
Við fylgdumst mjög náið með flestum þessum fyrstu umferðar floppum hjá Rockets. Það var ekki bara það að liðið væri ekki nógu sterkt, það bara féll ekkert með því.
Við skulum vona að gangi betur hjá risanum ljúfa í því sem hann tekur sér fyrir hendur næst.
Efnisflokkar:
Dánarfregnir og jarðarfarir
,
Yao Ming