Friday, July 29, 2011
Nokkur orð um fráköst
Þessir vösku piltar eiga það sannarlega sameiginlegt að vera bráðhuggulegir. Þeir sem eru vel að sér í fræðunum eru eflaust fljótir að kveikja á því hvað þeir eiga fleira sameiginlegt.
Þetta eru þeir Bill Walton, Swen Nater, Bill Laimbeer og Kevin Love og ef þú ert með söguna á hreinu hefur þú eflaust áttað þig á því að þeir eiga það allir sameiginlegt að hafa orðið frákastakóngar í NBA deildinni. Fráköst eru vanmetin listgrein, enda segir Pat Riley alltaf "no rebounds - no rings."
Það sem er sérstakt við þessa fjóra af öllum þeim her manns sem hafa orðið frákastakóngar í deildinni okkar er að þeir eru bleiknefjar. Þessir fjórir eru einu hvítu mennirnir sem hafa orðið frákastakóngar í NBA síðan blökkumönnum var á annað borð leyft að spila í deildinni.
NBA deildin markar upphaf sitt árið 1946, en fyrstu blökkumennirnir fóru ekki að sjást í deildinni fyrr en upp úr 1950. Það var ekki fyrr en á sjöunda áratugnum sem hlutfall hvítra og svartra fór að jafnast í NBA. Um miðjan áttunda áratuginn og fram á þann níunda, fór hlutfallið að líkjast því sem það hefur verið síðan, þar sem segja má að þrír af hverjum fjórum leikmönnum í deildinni séu svartir.
Það er fleira sem tengir áðurnefnda pilta en hörundsliturinn. Þrír af þeim spiluðu jú fyrir UCLA háskólann.
Walton og hinn hollenski Nater voru samherjar og urðu tvívegis háskólameistarar undir stjórn goðsagnarinnar John Wooden. Kevin Love er sá þriðji og er núverandi frákastakóngur í NBA.
Eðlilega voru bleiknefjar eins og George Mikan frákastakóngar á sokkabandsárum NBA en eftir að hinn seinheppni Maurice Stokes braut ísinn fyrir þá svörtu árið 1956 var ekki aftur snúið.
Þá var röðin nefnilega komin að þeim Bill Russell og Wilt Chamberlain sem nánast skiptu frákastatitlinum milli sín frá 1957 til 1973.
Russell hirti titilinn þrjú ár í röð frá árinu 1957, þá tók Chamberlain við og vann fjögur ár í röð, þá vann Russell aftur tvö ár í röð og svo tók Wilt aðra rispu og varð frákastakóngur sjö af næstu átta árum.
Eins og sjá má á þessu kemst enginn með tærnar þar sem Wilt hafði hælana en hann varð ellefu sinnum frákastakóngur og hirti tvisvar 27 fráköst eða betur að meðaltali í leik.
Chamberlain er líka eini maðurinn sem hefur átt 50/25 meðaltal á tímabili í NBA. Vissulega var leikurinn öðruvísi í þá daga en hann er núna, en það breytir því ekki að þetta eru lygilegar tölur.
Þegar gullöld þeirra Chamberlain og Russell lauk má segja að það hafi verið Moses Malone sem tók við sem óumdeildur frákastakóngur deildarinnar. Moses varð frákastakóngur árið 1979 og hirti flest fráköst allra sex af næstu sjö árum.
UCLA drengirnir Bill Walton og Kareem Abdul-Jabbar urðu frákastahæstir árin á undan Moses, en það var téður Swen Nater sem kom í veg fyrir að Moses næði flestum fráköstum sjö ár í röð þegar hann varð frákastakóngur árið 1980 með San Diego Clippers.
Nater er eini maðurinn sem afrekaði að verða frákastakóngur bæði í NBA og ABA og lauk ferlinum í NBA með LA Lakers árið 1984 þar sem liðið tapaði fyrir Boston í oddaleik í lokaúrslitum.
Það var svo einmitt Bill Laimbeer sem batt enda á sigurgöngu Moses Malone í fráköstunum þegar hann vann sinn fyrsta og eina frákastatitil árið 1986 með Detroit, en það var ekki fyrr en aldarfjórðungi síðar
sem næsti hvíti maðurinn vann titilinn þegar Love
gerði það í vor.
Árið 1987 varð Charles Barkley frákastakóngur í sitt fyrsta og eina skipti og er það sérstakt fyrir þær sakir að hann er lágvaxnasti leikmaður sem orðið hefur frákastakóngur í nútíma NBA.
Barkley snaraði þá 14,6 fráköst að meðaltali (5,7 í sókn) í leik þrátt fyrir að vera ekki millimeter hærri en 200 sentimetrar á hæð (líklega nær 195).
Árið 1992 var röðin komin að manninum sem margir kalla besta frákastara allra tíma, Dennis Rodman. Hann varð frákastakóngur NBA deildarinnar sjö ár í röð, sem er að sjálfssögðu met.
Ekki var nú hæðin að þvælast fyrir Rodman frekar en Barkley, en Rodman var einfaldlega fæddur til að frákasta og lagði ofuráherslu á það.
Þeir sem hafa svo verið framarlega í greininni síðan Rodman hætti eru Dikembe Mutombo (tvö ár í röð), Ben Wallace (tvö ár í röð), Kevin Garnett (fjögur ár í röð) og Dwight Howard (þrjú ár í röð).
Þá er bara að sjá hvort Kevin Love verður aðeins annar maðurinn (Chris Webber ´99) á síðustu 20 árum sem nær ekki að verja frákastatitil sinn næsta vor - ef hann fær þá tækifæri til þess, blessaður.
Efnisflokkar:
Fráköst
,
NBA 101
,
Raunir hvíta mannsins