Monday, July 18, 2011

Blake Griffin þarf að spila körfubolta


Það var nákvæmlega ekkert jákvætt við verkbannið í NBA um aldamótin. Ekkert.

Það kom illa niður á deildinni og leikmönnum sem í henni spiluðu. Sumir urðu aldrei samir. Shawn Kemp var einn þeirra. Datt í borgarana, fékk sér svo í haus og át fleiri borgara. Allir vita hvernig það endaði.

Þá kom líka í ljós að fjöldi NBA leikmanna lifði mjög hátt og eyddi laununum sínum jafnóðum og þeir fengu útborgað. Héldu uppi her manns og áttu bíla og hús út og suður. Þessir menn lentu illa í því þegar leið á verkbannið og ávísanirnar hættu að berast.

Ætla mætti að menn hefðu nú lært af bullinu ´99 en svo sjáum við tölur eins og komu fram í könnun Sports Illustrated frá því fyrir tveimur árum. Þar kom í ljós að 60% NBA leikmanna væru orðnir blankir fimm árum eftir að þeir hættu að spila í deildinni. Það er sláandi tölfræði þegar haft er í huga að meðalárslaun í deildinni í dag eru ríflega 760 milljónir króna.

Vonandi gerist eitthvað kraftaverk mjög fljótlega svo deildin fagra geti hafist á ný. Það myndi gera út af við okkur ef við þyrftum að horfa á eftir Blake Griffin í ruglið.

Guð forði okkur.