Monday, June 6, 2011

Dallas tókst ekki að klára í dauðafæri:


Þriðji leikurinn varð að vinnast. Dallas varð að byggja á þjófnaðinum í öðrum leiknum og vinna þann þriðja. Komast í bílstjórasætið í einvíginu. Verja heimavöllinn og nýta sér þá kosti sem fylgja því að spila næstu þrjá leiki heima. Þetta vissu Dirk og félagar auðvitað.

En þeir áttu ekki innistæðu til að klára þennan leik. Miami var bara betra í kvöld og er vel yfir á stigum í þessari rimmu. Og ekki er verra að ná heimavallarréttinum strax aftur eftir klúðrið í leik tvö. Og nú er ljóst að Miami mun klára þetta einvígi á heimavelli sínum sama hvað gerist. Gríðarlega sterkt.

Þetta hafa verið jafnir leikir en það er ekki gaman fyrir Dallas að hugsa til þess að ef ekki væri fyrir monjúmental skitu hjá Miami í öðrum leiknum, væri staðan faktískt 3-0 í þessu einvígi.

Dwyane Wade var maður leiksins, Udonis Haslem frábær, LeBron spilaði leikframherjastöðuna vel, Chalmers flottur af bekknum og það fyndnasta er auðvitað að Chris Bosh hafi skorað það sem reyndist vera sigurkarfan.

Það er ótrúlegt að maður sem er að drulla svona á sig eins og Bosh skuli klára þetta. Gaurinn var ekki að hitta neitt frekar en áður í þessu einvígi. Skömmu áður hafði hann ekki kjark í að taka stórt skot og eyðilagði sókn fyrir Miami.

En hann fékk annan séns og tók hann. Hafði pung í að taka skotið og setti það niður. Mjög stórt atriði.

Það er kannski of snemmt að vera með yfirlýsingar og fullyrðingar eftir aðeins þrjá leiki þegar þeir eru allir svona rosalega jafnir, en það eru allt of margir hlutir að vinna með Miami núna. Eðlilegasti hlutur í heimi væri að Dallas jafnaði í 2-2 í næsta leik en Miami tæki rest - tryggði sér 4-2 sigur með því að vinna sjötta leikinn heima.

Dirk Nowitzki skoraði síðustu 9 stig Dallas í leik tvö og síðustu 12 stig liðsins í leik þrjú. Það er morgunljóst að hann er ekki jafn vel settur með aukaleikara og þeir Wade og LeBron. Terry og Barea hittu ekki neitt af bekknum og Dallas er ekki í góðum málum þegar svo er. Þetta verður hrikalega erfitt fyrir Dallas-menn.