Wednesday, March 23, 2011
Heimabrugg: Nostradamus á NBA Ísland
Okkur leiðist það svakalega að tilkynna að við tippuðum rétt á leikina þrjá hér heima í kvöld.
Snæfell kláraði sitt dæmi þrátt fyrir smá hikst, Keflavík fór áfram á spá okkar einni saman virtist vera og því miður fyrir Grindvíkinga reyndist spá okkar um þá rétt, þeir höfðu ekki bein í nefinu til að klára þetta.
Grindavíkurliðið sem fyrr segir mjög öflugt en það er engin leið að vera að pönkast svona í úrslitakeppni án þess að vera með miðjubakvörð. Setti ekki skemmtilegan svip á seríuna fyrir okkur áhorfendur.
Við erum sammála Teiti, sigurinn sem Stjarnan vann í kvöld var mjög svo móralskur, en liðið verður að gera miklu miklu betur ef það ætlar sér stærri hluti. Það hlýtur að koma hjá þeim.
Það munaði ekki nema sekúndum að við hefðum séð suðurnesjalaus undanúrslit. Það hefði verið spes. Það hefði líka verið spes að sjá ÍR fara áfram, en liðið fékk meira en nógu góðan séns til að stela þessu í Kef í kvöld og á því ekki meira skilið.
Hvernig væri annars að ÍR-ingar færu aðeins að endurskoða sín mál aðeins? Eru þeir virkilega ekki orðnir þreyttir á því að spila alltaf eins og rollur nema í síðustu umferðunum og í fyrstu umferðinni? Alltaf skal ÍR dúkka upp með drullu skemmtilegt og sterkt lið á vorin, en alltaf skal vanta herslumuninn upp á að liðið fari áfram. Ár eftir ár eftir ár. Við værum hlaupandi á steinveggi ef við værum ÍR-fans. Höfum ekkert á móti ÍR, ekki fara að misskilja okkur, við bara áttum okkur ekki alveg á þessu. Það er eins og liðinu sé meinað að taka þetta skref.
Nú er Stjarnan að taka þetta skref. Hefur, eins og ÍR, náð að næla í bikarmeistaratitil nýlega, en hingað til hefur ekki tekist að taka skrefið í úrslitakeppni. Það er því skemmtilegt fyrir Teit og lærisveina hans að ná loks að brúa þetta bil.
Nú er ljóst að það í undanúrslitunum fáum við Snæfell-Stjarnan og KR-Keflavík. Þetta verður BARA skemmtilegt. Spáum í það þegar nær dregur. Þetta var frábært kvöld.
Efnisflokkar:
Grindavík
,
Heimabrugg
,
ÍR
,
Keflavík
,
Snæfell