Wednesday, March 23, 2011

Farvel meistari


"Þetta er orðið gott hjá ykkar manni. Best að leggja skóna á hilluna," sagði Nick Bradford á Twitter síðunni sinni í kvöld eftir að hans menn í Grindavík féllu úr leik í úrslitakeppninni þegar þeir töpuðu fyrir Stjörnunni.

Líklega er það rétt. Líklega er þetta orðið gott hjá honum. Bradford hafði orð á því að þetta væri í fyrsta sinn sem hann upplifði að þurfa að vera áhorfandi í leik sem þessum. Sat á bekknum þegar allt var undir og fékk ekki að fara inn á völlinn.

Það er dálítið ósanngjarnt að skjóta fast á Bradford eftir síðustu leikina hans á Íslandi. Grindavíkurliðið var hálfgert kaos svona án leikstjórnanda og það dæmdist allt of mikið á Bradford að vera í boltakúnstum sem lappirnar á honum bjóða ekki lengur upp á og leikformið leyfði ekki.

Bradford verður fyrst og fremst minnst fyrir óslitna sigurgöngu hans með Keflavík á sínum tíma og ef til vill stórleikja hans með Grindavík í einvíginu við ofurlið KR fyrir tveimur árum.

Nick var og er risastór karakter sem var unun að fylgjast með, bæði þegar hann var að spila og þegar hann lét dæluna ganga. Hann er nú farinn heim til að kíkja á litla pjakkinn sinn. Vonandi kemur hann aftur einn daginn. Þeir koma ekki hingað á hverjum degi svona snillingar.