Tuesday, January 11, 2011
Sagan má ekki endurtaka sig í Clipperlandi:
Áhorfendatölur á heimaleikjum LA Clippers hafa ekki verið betri í fjögur ár. Eða um það bil síðan liðið var ekki drasl í fyrsta og eina skiptið á síðustu 20 árum. Komst þá meira að segja í úrslitakeppnina og allt.
Sjónvarpsáhorf á lókalstöðinni hefur farið upp um 65% frá í fyrra. Kemur alls ekki á óvart í ljósi þeirrar gríðarlegu athygli sem Blake Giffin einn og sér er að vekja.
Enn og aftur hefur Clippers liðið sankað að sér nokkrum mjög spennandi og ungum leikmönnum. Mönnum eins og Blake Griffin, Eric Gordon, DeAndre Jordan, Al-Farouq Aminu og Jarron Collins.
(Síðasta nafnið í upptalningunni var brella. Ef þér fannst fyndið að sjá nafn Collins þarna, ertu með góðan húmor. Ef þér fannst það ekki fyndið, ertu sauðaþjófur og lydda. Verst er ef þú fattaðir ekki að Collins er gamall sekkur og einn leiðinlegasti leikmaður í sögu leiksins. Ef svo er, þarftu að athuga þinn gang - jafnvel rúlla upp í Papco. Nóg um það).
Við látum alltaf blekkjast og hrífumst með þegar upp koma ung og spennandi lið í NBA. Skemmst er að minnast framgöngu Oklahoma City á síðustu leiktíð.
Það væri freistandi að stökkva svona um borð í Clippers-lestina núna, en þú verður að passa þig. Gætir brennt þig mjög illa af því þú ert ekki kominn með vonbrigðasigg á heilann á þér eins og lengra komnir Clippers-aðdáendur.
Ekki gleyma að þetta er LA Clippers, með sama eiganda, sömu umgjörð og sumpart sömu leikmenn (við erum að tala við þig, Baron Davis). Ekki gleyma því að efnilegir drengir hafa fokið beina leið til andskotans eftir að hafa verið hjá þessu liði.
Við skulum því minnast Clippers-liðsins í kvöldbænunum krakkar. Biðja þess að eigandinn verði bráðum settur á elliheimili, í fangelsi (þar sem hann á líklega heima) - nú eða bara á diskóið. Biðja þess að leikmennirnir haldi sönsum og hljóti ekki meiðsli sem binda enda á atvinnumennsku þeirra. Biðja þess að þessir ungu piltar eigi sér bjarta framtíð, lausir við bölvunina sem legið hefur á félaginu alla tíð.
Svona er nauðsynlegt að setja andann dálítið í þetta. Svona efnilegir strákar eins og hjá Clippers gera lífið skemmtilegra fyrir okkur öll. Auðvitað hafa allir gaman af því að sitja heima og horfa á Silfur Egils, Hringekjuna og Kontrapúnkt, en mikið má vera ef körfuboltinn okkar trompar þetta ekki allt saman.