Saturday, November 6, 2010

Chris Bosh grípur sjaldan skoppandi körfubolta


Sáum Miami tapa fyrir New Orleans á föstudagskvöld.

Ekki hægt að sjá augljósara dæmi um það sem upp á vantar í Miami-liðinu. Emeka Okafor spilaði eins og hann væri besti miðherji í deildinni.

Miami er fyrir neðan miðja deild í fráköstum og það er ekki að gera sig. Vantar meira kjöt í miðjuna hjá þeim.

Chris Bosh er ekki að hjálpa. Maðurinn sem Shaquille O´Neal kallaði RuPaul stóru mannanna er að standa undir því skemmtilega gælunafni.

Hann er bara að skora 13 stig að meðaltali í leik það sem af er. Það var vitað mál að hann myndi líklega lækka í stigaskori við komuna til Miami en þrettán stig í leik er bara lélegt.

Og fráköstin? Fimm komma fimm stykki. Er þetta grín? Maðurinn næstum sjö fet á hæð og er búinn að eiga tvo leiki á innan við viku þar sem hann hirðir EITT frákast!

Bosh þarf auðvitað að pappíra sig en við hverju vorum við að búast af honum? Hann er sami leikmaður og hafði orðið fyrir gagnrýni í Toronto.

Bosh kann illa við sig í teignum, er snertifælinn og líður best þegar hann er að taka stökkskot fyrir utan. Þetta breytist ekki þó hann fari til Miami.

LeBron James og Dwyane Wade eru báðir frábærir leikmenn. Það hefur ekkert breyst. En það er eitthvað dálítið "off" við það að horfa á Heat spila. Svona "nú mátt þú taka yfir leikinn - svo ég" bragur. Ekki hægt að segja að hlutirnir séu beinlínis að smella saman hjá Sólstrandargæjunum.

Miami á eftir að vinna marga leiki í vetur á góðum varnarleik og snilli Wade og James, en lið sem eru með leikplan og ráðast á veikleika Miami geta auðveldlega unnið þetta ofurlið. Að minnsta kosti er það þannig í dag.

Boston gerði þetta um daginn og New Orleans gerði þetta á föstudagskvöldið.

Auðvitað þurfum við að gefa Miami lengri tíma áður en við förum að drulla, en við fyrstu sýn virðist þetta lið ekki ætla að slá nein met í vetur. Leikmenn eiga eftir að spila sig betur saman og allt þeirra bíður stærra verkefni við að stoppa upp í þau risastóru göt sem eru á leik liðsins.

Það voru engir Rondo og Perkins fyrir hjá Miami til að fylla upp í skörðin fyrir hina svokölluðu Big Three.

Bara Joel Anthony og Carlos Arroyo.

Er það nóg?