Thursday, October 28, 2010
Meira af Blake Griffin
Það má segja að NBA hafi byrjað fyrir alvöru í nótt sem leið með hvorki meira né minna en þrettán leikjum.
Það sem okkur þótti einna skemmtilegast í gær var frumraun Blake Griffin hjá LA Clippers. Ef hann var stressaður fyrir fyrsta NBA leikinn sinn, tókst honum mjög vel að fela það. Fyrsta karfan hans var viðstöðulaus troðsla eftir frákast (og þú getur séð hana í myndbandinu í færslunni á undan).
Griffin er meira en bara troðari. Drengurinn er mikill íþróttamaður og hefur ótrúlegan hraða og snerpu miðað við mann af þessari stærð. Svo fer hann vel með boltann og dripplaði einu sinni yfir allan völlinn og átti stoðsendingu af gólfinu á bakvörð sem lagði boltann ofan í. Mjög áhrifamikil frumsýning.
Það átakanlega við þetta allt saman er að Griffin skuli spila með LA Clippers. Það er svo skrítið að sjá körfuboltalið með svona mikla hæfileika vera jafn lélegt og raun ber vitni.
Allt byrjar þetta hjá Baron Davis. Clippers-liðið verður ekki gott nema Baron Davis nenni að spila eins og maður og því nennir hann allt of sjaldan.
Það verður samt æpandi skemmtilegt að fylgjast með Clippers í vetur og við erum að hugsa um að setja okkar peninga á Blake Griffin í kapphlaupinu um titilinn nýliði ársins. Hann á að leika sér að því að hirða titilinn ef hann verður heill og það vekur með okkur óstjórnlega gleði að skuli vera kominn stór strákur inn í deildina sem getur eitthvað.