Wednesday, October 20, 2010

Breyttir tímar


Það er okkur enn í fersku minni. Þegar við sáum Pau Gasol tekinn í bakaríið af Dirk Nowitzki í einvígi Dallas og Memphis í fyrstu umferð úrslitakeppninnar fyrir nokkrum árum.

Við munum það svo vel af því Nowitzki, sem aldrei hefur verið sakaður um að vera hörkutól, gjörsamlega pakkaði Gasol saman. Fór með hann inn í teig, hamraði á honum, skoraði yfir hann og gaf honum meira að segja olnbogaskot. Gasol virtist við það að fella tár. Dallas sópaði Memphis í þessu einvígi. Memphis var alltaf sópað.

Ekki grunaði okkur þá að nokkrum árum síðar yrði Gasol orðinn besti stóri maður heimsins og lykilmaður í meistaraliði LA Lakers.

Þetta segir vissulega sína sögu um stöðu stóra mannsins í NBA í dag, en þetta segir líka margt um Pau Gasol.

Þú getur eflaust fært rök fyrir því að þessi fullyrðing sé röng en það verður þá bara að vera þitt mál.