Monday, May 10, 2010
Rondo: Perlan á fjóshaugnum - Cleveland neitar að spila körfubolta
Fjórði leikur Boston Celtics og Cleveland Cavaliers í kvöld var hrútleiðinlegur.
Það verður bara að segjast eins og er. Fjörutíu vítaskot í fyrri hálfleik eiga það til að drepa aðeins niður flæði.
Ef ekki hefði verið fyrir Rajon Rondo, hefði hver sem er geta sagt okkur að þarna væri á ferðinni merkingarlaus deildarleikur í desember.
Hvar var eldurinn? Hvar voru desperasjónirniar? Hvar var La Pazíón?
Það er ekki auðvelt verk að finna orð til að lýsa frammistöðu Rondo í þessum leik.
Það stríðir gegn öllum náttúrulögmálum að maður á hæð við Egil Helgason skuli skila 29 stigum, ÁTJÁN fráköstum og 13 stoðsendingum í leik af þessari stærðargráðu.
Klárlega ein hrikalegasta þrenna sem við höfum nokkru sinni séð. Bara... rugl... bull!
Ok, þessi leikur var hundleiðinlegur fyrir utan frammistöðu Rondo, en hvað sagði hann okkur meira um einvígið?
Vel gert hjá Boston. Staðan orðin 2-2. Fínt hjá þeim.
Cleveland? Cleveland fær D-mínus fyrir frammistöðuna í kvöld. Við erum komin á sama stað og við vorum eftir leik tvö. Með fullri virðingu fyrir Boston, Cleveland er ekki að spila eins og contender. Þetta lið veit ekkert hvað það er að gera.
Hvar er gameplanið? Hvar er róteisjónið? Hver á að gera hvað? Getur þetta lið ekki unnið nema fá 35-12-12 leik frá LeBron James? Hvað er Shaq að gera þarna? Hvar er Mo Williams? Getur Antawn Jamison dekkað fótanuddtæki? Hvar er varnarleikurinn?
Og það sem skiptir mestu máli - hvar í andskotanum er hungrið og drápseðlið sem við sáum í leik þrjú?
Dömur mínar og herrar, við ætlum að nota þetta tækifæri til að kynna ykkur fyrir líklegasta liðinu til að klára Austurdeildina - Orlando Magic!
Einmitt, liðinu sem treystir á Dwight Howard og Vince Carter til að verða meistari.
Njótið vel. Cleveland kærir sig ekki um að vera með í umræðunni.
Það sáum við í kvöld.