Tuesday, May 11, 2010

Atlanta er svívirðilegt körfuboltalið


Orlando er komið í úrslit Austurdeildar annað árið í röð eftir að hafa stútað Atlanta Hawks fjórða leikinn í röð, nú síðast 98-84 í Atlanta.

Lið Hawks hefur farið mjög illa í taugarnar á okkur frá því það náði 2-0 forystu í einvíginu gegn Bucks í fyrstu umferðinni.

Það er ótrúlegt að hugsa til þess að lið sem hefur verið á hægri en öruggri uppleið undir stjórn sama þjálfarans undanfarin ár skuli geta afsalað sér tilverurétti sínum í hugum okkar í aðeins níu körfuboltaleikjum.

En það hefur Atlanta gert.

Venjulega þegar lið eru á þessari braut sem Atlanta hefur verið, er hægt að taka eitthvað jákvætt út og byggja á fyrir næsta ár. Það er ekki hægt hjá Atlanta þetta árið.

Þessi úrslitakeppni var ein stór hörmung og endurspeglaði svo átakanlega hvað þetta lið á enga von. "Enga vooooon!" sungið eins og af Eika Hauks og Kristjáni Jóhannssyni í laginu "Hjálpum þeim" frá árinu 1985.

Atlanta tapaði leikjunum fjórum gegn Orlando með samanlagt 101 stigi, sem er versta útreið sem lið hefur fengið í sögu NBA. Það er eitt að tapa - annað að sýna stuðningsmönnum sínum hreina og beina vanvirðingu.

Við höfum þegar sagt frá því hérna. Allir leikmennirnir í liðinu gáfust upp í síðasta lagi í síðari hálfleiknum í leik tvö í einvíginu við Orlando. Ef ekki strax í leik eitt þegar þeir töpuðu með 43 stiga mun. Reyndar má til sanns vegar færa að þeir hafi bara aldrei haft trú á verkefninu sem fyrir þá var lagt eftir að þeir stauluðust í gegn um vængbrotið lið Bucks í fyrstu umferðinni.

Það er ofar okkar skilningi af hverju við erum að eyða öllum þessum slögum á lyklaborðið í Atlanta liðið. Líklega er það af því við höfum algjöra óbeit á forríkum íþróttamönnum sem halda að það sé í lagi að mæta í leik í úrslitakeppni, skíta á gólfið og halda að þeir fái klapp á bakið fyrir það.

Við höfum séð ansi góðan slatta af leikjum á þessum áratugum sem við höfum fylgst með deildinni fögru, en munum ekki eftir að hafa séð annan eins viðbjóð og þann sem Atlanta bauð upp á í þessu einvígi.

Það var ekkert gameplan. Engin kerfi í sókninni. Bara stökkskot. Menn settu ekki hindranir. Hjálpuðu ekki í vörninni. Hlupu ekki til baka. Brutu fáránlega. Hengdu höfuðið. Héldu bara áfram að skíta á sig.

Í boltaíþróttum grípa menn oft fljótt í klisjuna um að "brjóta lið upp og byrja upp á nýtt" þegar lið gera í buxurnar.

Í tilviki Atlanta verður að skoða þann möguleika í alvöru.


Woodson þjálfari verður aldrei þarna næsta vetur og Joe Johnson er t.d. með lausa samninga. Hann ætti að drífa sig eitthvað annað og byrja upp á nýtt, en ekki fyrr en hann er búinn að líta fast í spegilinn.

Við höfum um langa hríð kallað Johnson vanmetnustu stjörnu í NBA deildinni. Eftir frammistöðu hans á vellinum í þessu einvígi og viðtöl sem við höfum séð hann veita í kjölfarið, er það álit okkar fokið út í veður og vind.

Þessi hugleiðing er allt of löng, en hún varð bara að vera það. Atlanta varð sér þetta mikið til skammar í þessari úrslitakeppni og tók pláss frá liðum sem áttu frekar skilið að vera þar.

Leikmenn Atlanta spiluðu síðustu níu leiki sína á þessu keppnistímabili eins og þeim væri skítsama um allt og alla.  Vonandi var það bara málið, því ef þeir eru með samviskubit, líður þeim klárlega verr en leikmönnum New Jersey Nets og Minnesota Timberwolves til samans þegar þeir pakka niður fyrir Benidorm-ferðina.