Wednesday, May 12, 2010

Aðeins um Orlando-körfubolta


Orlando er búið að vinna tvö fyrstu einvígin sín í úrslitakeppninni 4-0 og er því komið í úrslit Austurdeildar á 8-0 spretti líkt og Cleveland í fyrra.

Orlando fær því góða hvíld fram að einvíginu við Cleveland eða Boston. Pásan sem Cleveland fékk í fyrra gerði liðinu ekkert gott og það sama verður uppi á teningnum hjá Orlando núna.

Fínt að fá þrjá til fjóra daga - allt um fram það skelfir þjálfara liða sem hafa verið á góðum spretti.

Og það þarf nú ekki mikið til að skelfa Stan Van Gundy. Sá maður hlýtur bókstaflega að vakna öskrandi. Dæmigerður morgun hjá Van Gundy-fjölskyldunni gæti verið eitthvað á þessa leið:

"GÓÐAN DAGINN! BÍDDU - ER EKKI TIL NEITT KÓKÓPÖFFS?!?!?! HVAÐ MEINARÐU KONA???? ÉG BAÐ ÞIG AÐ KAUPA KÓKÓPÖFFS Í GÆR!!!!!! AAAAAAAAAARRRRRGH!!!!"

Mótspyrnan sem Orlando hefur fengið í þessari úrslitakeppni er ekki mikil. Charlotte veitti liðinu miklu meiri mótspyrnu í fyrstu umferðinni en ömurlegt lið Atlanta í þeirri síðustu.  Taktu Charlotte og Atlanta og settu þau í úrslitakeppnina í Vesturdeildinni. Hvorugt liðið vinnur seríu gegn einu einasta liði þar frá sæti 1 til 8. Sorry, það er bara ekki að gerast.

Allt þetta þýðir samt alls ekki að Orlando sé ekki að spila vel. Orlando er nefnilega að spila drullu vel. Á báðum endum vallarins. Ekkert nema gott um það að segja.

Ástæðan fyrir því að við höfum ekki eytt miklu púðri í að fjalla um Orlando er einfaldlega sú að liðið á enn eftir að fá almennilega mótspyrnu. Liðið var í úrslitum í fyrra og á að vera betra núna, svo við skulum sjá hvað það gerir í úrslitum Austurdeildar.

Allir hérna á ritstjórninni eru mjög spenntir að sjá hvernig Orlando á eftir að vegna í alvöru einvígi. Höfum ákveðnar hugmyndir um hvernig það allt saman á eftir að þróast. Nægur tími til að spá í það.