Friday, May 7, 2010
Atlanta er ekkert rosalega frumlegt körfuboltalið
Orlando er 6-0 í úrslitakeppninni eftir nokkuð öruggan sigur á Atlanta í öðrum leik liðanna í kvöld.
Orlando vann fyrsta leikinn með 43 stiga mun eins og frægt er orðið, en mótspyrna andstæðinganna var allt önnur og betri í leik tvö. Atlanta spilaði miklu betur, en aðeins í rúman hálftíma og heimamenn krúsuðu yfir þá í fjórða leikhlutanum.
Það er átakanlegt að horfa á einhæfan sóknarleik Atlanta. Fjórir menn sem standa kjurrir og horfa á þann fimmta fara einn á einn. Josh Smith var skelfilegur á köflum í leik tvö. Þvingaði skot og í tvígang í síðari hálfleik nennti hann ekki að hlaupa til baka í vörnina og lið hans fékk fimm stig í grillið á meðan. Svona menn á bara að senda í sturtu.
Andinn í Atlanta-liðinu er eins og í jarðarför. Liðið er miklu ferskara á heimavelli þar sem það hittir betur og ver skot og djöflast í vörninni, en það er erfitt að sjá þessa seríu fara langt.
Það er líka rosalega erfitt að sjá hvort Orlando er að spila gullbolta eða ekki. Auðvitað er liðið að spila sæmilega "vel" þegar það klárar seríuna í fyrstu umferðinni með sópnum, en það segir okkur ekki nógu mikið.
Höfum í huga að það gerði Cleveland nákvæmlega ekkert gott að fara 8-0 í gegn um slaka andstæðinga í fyrstu umferðunum í fyrra.
Því er ekki að neita að Orlando hefur rosalegt vopnabúr. Sérstaklega ef stjörnumiðherjinn þeirra er nú að hanga inni á vellinum. Jameer Nelson er að spila eins og algjör töffari og þarna eru byssur í hverju horni. Það er bara drulluerfitt að eiga við Orlando þegar það fær að spila sinn leik.
Við eigum samt enn eftir að sjá það gerast að Dwight Howard og Vince Carter fari fyrir liði sem gerir eitthvað í úrslitakeppni. Það væri bara á skjön við öll okkar NBA-trúarbrögð.
Ótrúleg staðreynd að staðan á öllum vígstöðvum í annari umferðinni skuli vera 2-0 eftir tvo leiki nema hjá Cleveland og Boston.
Ok, kannski ekki. Við héldum bara að Suns og Spurs myndu skipta með sér leikjunum í Phoenix.
Hey - leikur þrjú milli Spurs og Suns er einmitt í beinni á Stöð 2 Sport klukkan 1:30 í nótt (fös). Horfðu á það ef þú ætlar að kveikja á sjónvarpinu yfir höfuð í þessum mánuði.