Saturday, April 3, 2010

Hugleiðing um LeBron James til að hafa með á klósettið


Kobe Bryant er búinn að framlengja samning sinn við LA Lakers út leiktíðina 2014. Þetta eru í alla staði góð tíðindi fyrir leikmann og félag.

LeBron James er vonandi að lesa þetta. Getur lært af þessu. Hann ætti að halda kyrru fyrir í Cleveland að okkar mati.

Últramegastjörnur eiga að halda tryggð við sín félög að okkar mati. Vinna þá titla sem þeir geta náð í sem kóngar í sinni sveit. Ekki eins töff að þurfa að fara annað til að gera það.

LeBron var reyndar ekki eins heppinn og Kobe þegar kom að því að velja sér félag til að spila fyrir. Kobe var eins og allir vita draftaður af Charlotte Hornets, en það kom aldrei til greina fyrir hann að spila þar. The powers that be og Jerry West höfðu aðrar hugmyndir.

Skrítið að ekkert slíkt hafi verið uppi á teningnum þegar Cleveland landaði LeBron á sínum tíma. Að síminn hafi ekki hringt og hrjúf karlmannsrödd hinu megin á línunni sagt: 


"Eeeh, þið eruð ekki að fara að fá þennan leikmann. Hann kemur til okkar gæskur. Við sendum ykkur eitthvað rusl í staðinn."

En LeBron er að spila í sinni heimabyggð. Og þar á hann að vera áfram. Það væri uncool. Það getur vel verið að væri töff að spila á stærri markaði (New York, Chicago osfv) en hvað eiga þessi félög að bjóða honum? Geta ekki boðið honum hærri laun en Cleveland.

Fjölmiðlafárið í kring um LeBron og samningsmál hans næsta sumar eru orðin meira en þreytt. Þau eru orðin leiðinlegri en Júróvisjón. Við ætlum því að binda enda á þjáningar ykkar og súmmera þetta bull upp.

LeBron verður áfram í Cleveland. Ohio er hans crib og því vill hann eiga á hættu að hleypa illu blóði í sveitunga sína EF til þess kæmi að honum gæfist tækifæri til að komast í betra prógramm (þ.e. til félags sem getur garanterað að hann verði alltaf að spila með contender).

Staðan er bara þannig að það er mjög ólíklegt að félögin sem hann hefur verið orðaður við geti boðið eitthvað freistandi - svona körfuboltalega séð. Það er meiri glamúr í t.d. New York en í Cleveland, en Knicks þurfa að rótbylta öllu ef félagið á að geta fengið LeBron til sín og þá er hann betur settur hjá Cavs.

LeBron á væntanlega eftir að gera stuttan samning. Það er það sem koma skal. Stuttan samning til að útiloka sig ekki frá því að komast burt ef stjórnin drullar upp á bak. Það er bara það gáfulega í stöðunni fyrir hann.

Hann athugar auðvitað hvað verður í boði í sumar. Honum verður boðið gull og grænir skógar og úr þessu verður enn meira fjölmiðlafár en nú þegar er orðið.

Leiðinlegt fyrir okkur en frábær tíðindi fyrir LeBron ehf.

Svo þegar hann er búinn að kanna alla möguleika og sjá að líklega er hagstæðast að vera heima - ákveður hann að framlengja við Cleveland.

Eins og staðan er núna er það vitrænast í stöðunni.

Af hverju að taka sénsinn á að gera allt vitlaust í Cleveland og verða dæmdur föðurlandssvikari til þess eins og fara til New York og þurfa jafnvel að eyða x mörgum árum í að koma liði þar á hæsta level? Meikar ekki sens.

LeBron á Cleveland, en ef allt færi á versta veg gæti New York allt eins étið hann lifandi. LeBron þarf ekki fleiri hindranir á vegi sínum til þess að verða einn af fimm bestu körfuboltamönnum sögunnar.

Það ótrúlegasta við LeBron James er ekki sú staðreynd að hann er eitt ótrúlegasta fyrirbæri sem spilað hefur körfubolta. Alls ekki.

Það ótrúlega er að maður með svona bakgrunn, komandi úr fátækt, eigandi mömmu sem hatar ekki sopann og græna dótið, maður sem hefur verið hundeltur af fjölmiðlum síðan áður en hann byrjaði að raka sig (í hans tilfelli, væntanlega áður en hann varð 11 ára), hafi ekki gert nema örfá agnarsmá mistök á árum sínum í NBA deildinni.

Á meðan margir af meðbræðrum hans hafa sveiflað byssum, lamið fólk, keyrt fullir, ráðist á áhorfendur, nauðgað, setið fyrir naktir á netinu og étið vaselín - hafa yfirsjónir James verið færri en hjá flestum sóknarprestum á Íslandi (ef við gefum okkur að þeir séu fæstir kaþólskir).

Gaurinn er búinn að fá eina hraðasekt, mæta á kappleik með vitlausa húfu og strunsa einu sinni af velli í fýlu eftir tap. Það er allt og sumt! Ekki beinlínis brot sem varða óskilorðsbundið lífstíðarfangelsi ef þið spyrjið okkur.

Við trúum alveg á samsæriskenningar, ekki síst af því að NBA deildin hefur gefið okkur nokkur tækifæri til að trúa þeim - en við höfum enn ekki séð LeBron fer frá Cleveland-senaríó sem meikar sens. Það þarf svo margt og mikið að gerast til að svo verði.

Ekki það að það geti ekki gerst. Þetta er nú einu sinni stærsta sýning á jörðu.