Monday, February 1, 2010

Boston er dálítið að tapa körfuboltaleikjum


Það hafa örugglega margir kíkt hingað inn í þeirri von um að við myndum tjá okkur eitthvað um sigur LA Lakers á Boston í gær.

Það eru bara nokkrir dagar síðan við sögðum í kæruleysi að það skipti ekki miklu máli hvað Boston væri að gera núna - það kæmi bara í ljós í úrslitakeppninni úr hverju liðið væri gert. Kannski var það dálítið vanhugsað.

Boston er nú einu sinni búið að tapa þremur leikjum í röð í tvígang á hálfum mánuði og þó fari enginn beinlínis að grenja yfir því, kemur það ekkert vel út fyrir sálartetur leikmanna að tapa þremur svona "steitment" leikjum í röð gegn Atlanta, Orlando og svo Lakers.

Annars er þessi Austurdeild stórfurðuleg. Atlanta sópar Boston, en er á sama tíma búið að tapa öllum þremur leikjum sínum gegn Orlando með hátt í 70 stigum samanlagt. Undarlegt.

Og Lakers? Flottur sigur hjá þeim í Boston, en það er í raun enginn glans á þeim gulu heldur. Við höfum verið sökuð um Kobe-hatur oftar en einu sinni, en Kobe talar sínu máli sjálfur og kláraði enn einn leikinn í gær. Rakinn snillingur þar á ferð.