Sunday, January 10, 2010
Tyreke Evans spilar körfubolta
Það gerist ekki oft að ungliðar fái tækifæri til að skora tvær sigurkörfur á nýliðaárinu sínu í NBA deildinni.
Líkurnar á því eru hinsvegar ágætar ef menn eru teknir á topp fimm í nýliðavalinu, lenda hjá slökum liðum eins og Sacramento og eru að auki þjálfaðir af mönnum eins og Paul Westphal sem þora að láta boltann í hendurnar á nýliðum.
Það er samt ekki nóg að gefa sér þessar forsendur. Nýliðinn sem um ræðir verður auðvitað að hafa eitthvað til brunns að bera.
Og það hefur Tyreke Evans svo sannarlega.
Tryggði Sacramento sigur á Denver í nótt sem leið með fallegu skoti þegar innan við tikk var eftir á klukkunni. Og þetta var í annað skipti í vetur sem hann afrekar þetta.
Þeir sem eru hallir undir kenninguna um hálftóma glasið gætu bent á að Evans hefur í tvígang mistekist að koma af skoti þegar hann fékk sama tækifærið í vetur - í leikjum gegn ekki ómerkari liðum og LA Lakers og Cleveland.
En stráksi er nú bara nýliði og við verðum að gefa honum séns á að gera nokkur mistök áður en við förum að gera háværar kröfur á hann.
Hugsið ykkur. Hvað hefði orðið um þennan dreng ef Kevin Martin, aðalskorari Kings, væri ekki búinn að vera meiddur í allan vetur?
Brandon Jennings hjá Milwaukee byrjaði veturinn með miklum látum, en ef svo fer sem horfir, fær Evans ekki mikla samkeppni í kapphlaupinu um titilinn nýliði ársins.