Sunday, January 10, 2010

Tíu milljón stig og eintóm hamingja í Bílaborginni


Við hérna á NBA Ísland óskum Ben Gordon hjá Detroit Pistons að sjálfssögðu til hamingju með þann skemmtilega og sögulega áfanga að verða maðurinn sem skoraði tugmilljónasta stigið í sögu NBA deildarinnar.

Það er kannski til marks um það hvað sum okkar eru orðin gömul, að við munum eftir því eins og það hafi gerst í gær þegar Stacey "Plastmaður" Augmon skoraði sex milljónasta stigið í deildinni árið 1992.

Væntanlega með vindmyllutroðslu í boði Myllunnar yfir eitthvert bleiknefjahræið. Myllu kökur, Myllu brauuuað!!!

Þetta er ein leið til að stimpla sig inn í söguna, en Detroit er reyndar líka að reyna að stimpla sig inn í söguna á annan og talsvert sorglegri hátt.

Liðið er búið að tapa tólf leikjum í röð. Síðasta tapið kom gegn liði sem hefur ekki verið í mikið glæsilegri málum í vetur - Philadelphia 76ers*

"Árangur" Detroit frá miðjum nóvember er í meira lagi undarlegur - og þá teljum við með þá staðreynd að meiðsladraugurinn hefur farið ansi illa með liðið í vetur.

Sjö töp í röð, sigur, tap, fimm sigrar í röð og svo tólf töp í röð! Þræl-eðlilegt alveg.

                                                  ------

* -"Mér fannst liðið ansi bitlaust á tíðum í leiknum," sagði John Kuester, þjálfari Detroit eftir Sixers-leikinn. Í alvöru, John? Hvað halda forráðamenn Detroit samt, svona í alvöru, að liðið nái langt undir stjórn þjálfara sem heitir John Kuester?

Hljómar dálítið eins og Rudi Küster hinn þýski sem att kappi við Jón Pál Sigmarsson í einhverri keppninni um Sterkasta mann heims á níunda áratugnum.  

"Já, vissulega háðu axlarmeiðslin mér í drumbalyftunni, en ég ætla mér að bæta það upp í trukkadrættinum!"