Það er ekki úr vegi að líta um öxl þegar staðið er á áratugamótum eins og nú um áramótin.
Blaðamenn vestanhafs hafa verið að taka saman eitt og annað skemmtilegt sem stóð upp úr á áratugnum frá og með árinu 2000 og út árið 2009.
Eitt af því sem er gaman að skoða er þessi litla tafla sem sýnir sex stærstu samningana sem undirritaðir voru á þessum áratug.*
Það er ekki laust við að sumar af þessum stjarnfræðilegu tölum valdi okkur hneykslan og ógleði þegar við lítum til baka. Nú má auðvitað deila um hvort það sé heilbrigt að borga nokkrum einstaklingi yfir 100 milljónir dollara fyrir að leika sér í körfubolta í nokkur ár, en hvernig tókst þessum sex einstaklingum að standa undir þessum svimandi háu samningum?
Það er auðvelt að svara því. Tveir menn á þessum lista unnu fyrir kaupinu sínu. Hinir fjórir? Ekki svo mikið.
1. Kobe Bryant. 136,4 milljón dollara samningur árið 2004.
Stærsta nafnið í NBA undanfarin ár. Einn vinsælasti leikmaður heims. Pund fyrir pund besti leikmaður deildarinnar um árabil.
Stigakóngur. Umdeildur og alltaf í fréttum. Selur bílfarma af treyjum og tvöfaldaði það með því að skipta um númer. Meistari með Lakers 2009. Geðsjúkt keppnisskap. Fyrstur á æfingar, síðastur heim. Spilar meiddur. Eitt besta gælunafnið í bransanum.
Niðurstaða: Vann og vinnur fyrir kaupinu sínu - þó hátt sé.
2. Jermaine O´Neal. 126,6 milljón dollara samningur árið 2003.
Spilaði ágætlega árið eftir að hafa skrifað undir þennan fáránlega samning hjá Indiana en fljótlega fór að halla undan fæti. O´Neal var þekktastur fyrir að vera meiðslakálfur og vælukjói síðustu ár sín hjá Indiana þar sem hann spilaði 44, 51, 69 og 42 leiki fyrir liðið síðustu fjögur árin hjá Pacers.
O´Neal kom mjög ungur inn í deildina og þó hann sé aðeins 31 árs í dag eru nokkur ár síðan skrokkurinn á honum varð fertugur og gat ekki skilað því sem til þarf til að spila á hæsta leveli. Rulluspilari með Miami í dag.
Niðurstaða: Hefði mögulega spilað upp í helming samningsupphæðarinnar - ef hann hefði klónað sig.
3. Chris Webber. 122,7 milljón dollara samningur árið 2001.
Hvað er hægt að segja um Chris Webber? Einhver hæfileikaríkasti kraftframherji sem stígið hefur inn á körfuboltavöll, en var bara aldrei alveg "með þetta." Spilaði lengst af á felgunni með goðsagnarkenndu og skemmtilegu liði Kings í upphafi síðasta áratugar, en skilaði samt fallegum tölum.
Webber mun samt aldrei ná að réttlæta þennan rosalega samning, sérstaklega ekki þegar litið er til þess að þegar liðið þurfti mest á honum að halda - var hann annað hvort meiddur eða í kvíðakasti. Stendur sig ágætlega sem sjónvarpsmaður í dag.
Niðurstaða: Hvað eru 122,7 millur deilt með tveimur? Gefð´onum það og málið er dautt.
4. Tim Duncan. 122 milljón dollara samningur árið 2003.
Látum okkur sjá. Þrír meistaratitlar. 2 MVP styttur. Leikmaður áratugarins. Besti kraftframherji sögunnar. Frábær í vörn og sókn. Óeigingjarn. Stöðugri en vélmenni. Leiðtogi. Besti liðsfélagi sem völ er á og fyrirmyndarpiltur.
Það væri hægt að færa rök fyrir því að Shaquille O´Neal eða Kobe Bryant ættu freka skilið að hljóta titilinn besti leikmaður áratugarins, en þegar allt er talið er það Duncan sem á þennan áratug skuldlaust. Flettu því bara upp. Það er ekki útilokað að við rúllum út pistli um það fljótlega.
Niðurstaða: Ef einhver leikmaður er 122 milljón dollara virði, er það Duncan.
5. Rashard Lewis. 112,7 milljón dollara samningur árið 2007
Margir göptu þegar Orlando gerði þennan risasamning við Lewis í hálfgerðu óðagoti. Málið er bara að Lewis var með lausa samninga á fullkomnum tímapunkti. Þegar enn tíðkaðist að gera allt of háa samninga upp á allt of há laun í bólunni á því herrans ári helvítis, 2007.
Það var ekki fyrir tilstilli Lewis sem Orlando fór mjög óvænt í lokaúrslitin í fyrra, en hann skemmdi nú ekki fyrir blessaður og þessi velgengni fékk menn í versta falli til að gleyma ofursamningi hans rétt á meðan.
Rétt eins og síðasti maðurinn á þessum lista, fór Lewis illa að ráði sínu þegar hann lét dæma sig í leikbann í haust eftir að hafa fallið á lyfjaprófi.
Niðurstaða: Orlando er hollara að vinna amk tvo titla fyrir Lewis ef hann á ekki að verða fyrir einelti síðustu árin af þessum fáránlega samningi, sem í besta falli er helmingi of hár.
6. Gilbert Arenas. 111 milljón dollara samningur árið 2008.
Arenas hefði komið illa út úr þessum pistli ef hann hefði verið skrifaður fyrir þremur vikum, en það má ekki á milli sjá hvort heimskupör hans í skotvopnamálinu á dögunum verða til þess að leysa hann undan ábyrgð eða jarða hann endanlega.
Jafnvel þó við gleymum þeirri staðreynd að Arenas geti nú ekki komið liði sínu til hjálpar vegna leikbanns en ekki meiðsla eins og venjulega, er þessi samningur sem Washington gerði við hann gjörsamlega glórulaus. Hann er eiginlega svo fáránlegur að réttara væri að hrauna yfir forráðamenn félagsins en Arenas sjálfan.
Þú bara gerir ekki 111 milljón dollara samning við mann sem er búinn að vera á meiðslalista lengur en inni á vellinum á árunum á undan! Og enn síður ef það liggur í augum uppi að maðurinn og liðið í kring um hann verður aldrei til annars en að tapa oddaleik í fyrstu umferð úrslitakeppninnar - í besta falli.
Það má því vel vera að þetta vopnaskak á Arenas verði tveggja tonna dulbúin blessun fyrir Wizards, því ef allt fer á
Nýjustu heimildir herma að það séu 100% líkur á að forráðamenn Wizards muni gera það ef þeir fá lagalegt svigrúm til þess (og stokki þá í leiðinni gjörsamlega upp í leikmannahóp sínum í leiðinni - þó fyrr hefði verið).
Niðurstaða: Einhver glórulausasti samningur síðari tíma.
* - Menn eins og Shaquille O´Neal hafa vissuelga verið í þessum hæsta launaflokki, en hann hefur verið að gera styttri samninga en þá sem um er rætt í þessum pistli og kemst því (kannski blessunarlega) ekki á þennan lista.