Saturday, January 2, 2010

Nate Robinson ákvað að spila körfubolta


Við höfum aldrei verið sérstaklega hrifin af varamanninum smávaxna Nate Robinson hjá New York Knicks.

Fyrir kvöldið í kvöld var Nate ekki einu sinni varamaður. Hann hafði ekki spilað í einn mánuð. Var í hundakofa Mike D´Antoni þjálfara. Og það er nú ekki eins og D´Antoni hafi úr miklu að velja þarna hjá Nix.

Til að gera langa sögu stutta, tók Robinson þá ákvörðun að koma af bekknum í kvöld og skora 41 stig í ótrúlegum útisigri Nix á skyndilega köldu Haukaliði þeirra Atlanta manna.

Atlanta var skv okkar heimildum nítján stigum yfir þegar um níu mínútur lifðu leiks, en náðu samt að tapa á heimavelli eftir framlengingu.

Þeir bara réðu ekki við þennan 175 cm haug af viðhorfum sem Robinson var í leiknum.


Það vildi svo skemmtilega til að leikurinn var sýndur í beinni útsendingu á NBA TV og var gríðarlega góð skemmtun. Þrátt fyrir þó nokkra andúð okkar á téðum Robinson, verður að viðurkennast að svona sprengingar eins og Robinson bauð upp á í nótt, sjást ekki í hverri viku í deildinni fögru.

"Það er eins gott að Robinson hafi gert eitthvað svakalegt af sér úr því hann þurfti að vera svona lengi í skammarkróknum," sagði gáttaður Dominique Wilkins í útsendingunni.

Veistu hvað, Dominique? Það er bara ekkert útilokað.

Mike D´Antoni hefur nú ekki vanur að vera mikið í fýlu við leikmennina sína. Hann setti auðvitað Boris Diaw á bekkinn hjá Phoenix á sínum tíma, en það var líka eftir að hann var staðinn að því að brjótast inn í bakarí og borða allt sem tönn á festi.