Tuesday, January 12, 2010

Mamba lifir!


Það þarf einhver að fara að segja Kobe Bryant að kannski sé ekkert svo sniðugt að taka öll þessi skot þegar vantar á hann einn putta.

Og þó. Fingurmeiðsli hans hafa ekki komið í veg fyrir að hann sé að vinna leiki með flautukörfum trekk í trekk.

Kannski er Mamba bara skriðin úr felum af því hún skynjar að varamannabekkur Lakers er álíka ógnandi og úrvalslið Hrafnistu í kasínu þessa dagana.

Við segjum Mamba, af því Kobe er búinn að taka rétt tæp þrjátíu skot að meðaltali í síðustu þremur leikjum.

Tveir þessara leikja voru tapleikir og sá þriðji var auðveldur sigur á meðvitundarlausu liði Bucks í gær - sem þó aftraði Kobe ekki frá því að taka 21 skot og hitta úr (trommur) fjórum þeirra.

Kobe er með 31,8% skotnýtingu í þessum þremur leikjum sem um ræðir, þar af deddlí 22% þriggja stiga nýtingu.

Flestar skyttur slaka aðeins á þegar þær eru ekki að finna sig. Ekki Mamba. Hún tekur bara fleiri skot. Og það er ástæðan fyrir því að við elskum Mamba. Miklu meira en Kobe.

Vitið þið hvað LeBron James hefur átt marga leiki í vetur þar sem hann hefur tekið fleiri en 30 skot?

Engan.

Og ekki koma með einhvern (úrgangur úr klaufdýrum) um að LeBron James hafi betri mannskap í kring um sig en Kobe Bryant. Ef svo er, kemur það málinu ekkert við.

Málið er bara að Kobe er ekkert búinn að hrista Mamba af sér þó hann hafi leikið aðeins við hina krakkana í úrslitunum í fyrra og unnið titil án Shaq. Mamba lifir. Og það er yndislegt!