Friday, December 4, 2009

Því miður, Dwight


Sagt er að Dwight Howard sé drengur góður og við höfum ekkert á móti honum persónulega.

Hvað sem því líður hefur hann fyllt miðherjastöðuna í fyrsta úrvalsliði NBA deildarinnar undanfarin tvö ár og á því verður engin breyting næsta vor. Það er ekki eins og deildin sé full af ungum og efnilegum miðherjum.

Með því að hljóta þann heiður að heita "besti miðherji NBA deildarinnar" ár eftir ár, er hinn geðþekki Howard sjálfkrafa kominn með stóra skotskífu á ennið hjá okkur hérna á NBA Ísland. Við viljum einfaldlega sjá meira frá "besta miðherja deildarinnar."

Þetta segir kannski meira um þunglyndislegan skort á miðherjum en Howard ræfilinn. En prófaðu endilega að smella á þennan hlekk og skoða miðherjana í úrvalsliði NBA síðustu þrjá áratugi eða svo.

Ef við gleymum vitleysunni 2006-07 (þegar þrír fjarkar voru í úrvalsliðinu - Dirk, Duncan og Amare), er í besta falli vandræðalegt að bera Howard saman við nöfnin á listanum. Það verður að fara að gera eitthvað í þessum miðherjamálum.

Það er ekki eðlilegt að Shaquille O´Neal geti á tíðum litið út sem besti miðherji deildarinnar þó hann sé kominn undir fertugt og keyri á 30-40% af upprunalegu trukki.

Það er kannski ljótt að vera að gera grín að aumingja Howard en við munum ekki hætta því.

Ekki á meðan hann heldur áfram að væla og rífast við þjálfarann sinn, vera í endalausum villuvandræðum,  taka innan við 10 skot að meðaltali í leik og vera álíka ógnandi í sóknarleiknum og þrjátíu ára gömul steypuhrærivél.