Thursday, December 3, 2009

Tólf kúlur í miða handa stuðningsmönnum


Það hefur ekki verið mikið rokk í Bradley Center, heimahöll Milwaukee Bucks, undanfarin ár. En nú virðist þetta vera að breytast.

Miðherjinn Andrew Bogut var orðinn leiður á andleysinu í áhorfendum og setti saman teymi sem hann kallar Squad 6, en það er svar Milwaukee-búa við Miðju þeirra KR-inga og Mafíu FH-inga osfv.

Bogut splæsir 100 miðum á Squad 6 á hverjum heimaleik í allan vetur. Inntökupróf voru haldin til að finna heitustu stuðningsmennina og menn verða að halda áfram í geðveikinni ef þeir ætla að halda sæti sínu í þessum 100 manna hóp - annars fá þeir ekki lengur ókeypis aðgang.

Sagt er að það muni kosta Andrew Bogut eitthvað um tólf milljónir króna að standa við þetta uppátæki sitt. Kannski ekki há upphæð fyrir mann sem er með á annan milljarð í laun á ári, en huggulegt framtak engu að síður.

Vonandi verður svona lagað og öskubuskuævintýrið Brandon Jennings til þess að hleypa smá lífi í hlutina þarna hjá Bucks.