Friday, December 11, 2009

Stjörnusnakk


Gargandi minnihluti ritstjórnar NBA Ísland hefur gaman af stjörnuleiknum og öllu sem honum fylgir. Það eru einna helst strákarnir frá Sapporo sem hafa gaman af þessum árlega viðburði, enda hafa þeir fyrir löngu bæði pantað sér miða og kosið sín byrjunarlið.

Í ár verður stjörnuleikurinn reyndar af dýrari gerðinni á Kúrekavellinum í Dallas þar sem vonir standa til um að fá eitthvað nálægt 100 þúsund manns á völlinn.

Þó herlegheitin séu ekki fyrr en um miðjan febrúar er strax farið að bera á fréttum frá kosningunni í byrjunarliðin. Ein þeirra olli okkur talsverðri ógleði, en það er sú staðreynd að enn er ekki loku fyrir það skotið að Tracy McGrady verði kosinn í byrjunarlið Vesturdeildarinnar þrátt fyrir að hafa ekki spilað körfubolta síðan Keith Richards var síðast edrú.

Ætli T-Mac geti ekki þakkað frændum sínum í Kína þessar gríðarlegu vinsældir. Það er gott að spila með Yao Ming þegar kemur að treyjusölu og vinsældakosningum.

Við héldum samt að væri lágmark að geta staðið í lappirnar til að eiga möguleika á að spila stjörnuleik. Þeir ætla kannski að kjósa Yao, Greg Oden og Christopher Reeve þarna inn líka...