LeBron James er stórkostlegur leikmaður. Fjórði stigahæsti leikmaður deildarinnar, sjötti í stoðsendingum og efstur í flestum framlagsformúlum sem haldið er utan um í deildinni.
Það fer hinsvegar dálítið í okkur þegar James missir sig í gleðinni í þriggja stiga skotunum. Hann er enn að taka meira en fjóra þrista að meðaltali í leik, en hittir aðeins 33% fyrir utan. Það dugir honum í 83. sæti yfir bestu þriggja stiga nýtinguna í deildinni - sömu nýtingu og Gilbert Arenas.
James er svo sem ekki eina stjarnan sem er að dæla upp þristum þrátt fyrir frekar slaka nýtingu. Kobe Bryant er tíu sætum fyrir neðan James í þriggja stiga skotunum með 32,7 % (þrátt fyrir sigurkörfuna gegn Miami) og Rasheed Wallace er kominn niður í aðeins 5,3 tilraunir í leik og áhugaverða 30% nýtingu.
Slök þriggja stiga nýting James tekur heildarskotnýtinguna hans niður um rúmlega 5%. James væri með ríflega 56% skotnýtingu ef hann tæki ekki alla þessa þrista. Það liti óneitanlega betur út.
Það er eins og við segjum stundum. Það á að banna leikmönnum eins og James að taka skot fyrir utan teig, enda er hann einhver dýnamískasti leikmaður allra tíma þegar hann kemst á ferðina.
Þeir hafa ekki verið margir í sögunni, ef einhverjir, sem hafa búið yfir sömu hrikalegu blöndunni og James hvað snertir hraða, snerpu, kraft, styrk, útsjónarsemi - og síðast en ekki síst - ómenguðum vilja til að leyfa hinum krökkunum að vera með í gleðinni.
Og hver er svo niðurstaða þessarar litlu hugleiðingar? Jú, LeBron James væri enn betri leikmaður en raun ber vitni ef hann hlustaði á fjölþjóðlega ritstjórn nba-bloggsíðu sem gerð er út frá Íslandi! Að hugsa sér!
-*VIÐBÓT*-
Skömmu eftir að þetta var skrifað tapaði Cleveland fyrir Memphis í framlengdum leik þar sem eftirfarandi gerðist:
* Memphis skoraði það sem reyndist vera sigurkarfa leiksins með því að teikna upp kerfi sem réðist beint á varnarleik Shaquille O´Neal. Það virkaði fullkomlega.
* LeBron James skoraði 13 síðustu stig Cleveland í leiknum en klikkaði á því síðasta - þriggja stiga skoti sem hann hafði þrjár sekúndur til að taka í lok framlengingar (Cavs tveimur stigum undir).
-Er þetta gott dæmi um að:
a) James eigi ekki að taka alla þessa þrista?
b) Mike Brown sé lélegur sóknarþjálfari?
c) það sé undantekning að James nái ekki að skora sigurkörfu í hvaða leik sem er?
d) Jen Fe sé drasl sem virkar ekki?