Sunday, December 6, 2009
Clyde Drexler úr leik hjá Portland!
Portland Trailblazers varð fyrir miklu áfalli í nótt þegar ljóst varð að stjörnuleikmaðurinn Clyde Drexler gæti ekki spilað með liðinu það sem eftir lifir leiktíðar.
Við nánari athugun kom í ljós að Drexler sást reyndar síðast í búningi Houston Rockets og er löngu hættur að spila körfubolta. Því verður Blazers-liðið að vera án hans í vetur.
Æ, já og svo er Greg Oden væntanlega líka úr leik í vetur eftir að hafa mölvað á sér löppina í leik gegn Houston í nótt. Úff - aftur.
Þetta eru ekki einu meiðslin í herbúðum Blazers núna. Þetta er að verða vandræðalegt. Meira að segja þjálfarinn náði að rífa hásin á æfingu og þarf í uppskurð eftir helgi.
Þessi nýjustu meiðsli eru auðvitað skelfileg tíðindi fyrir Oden sjálfan en eitthvað segir okkur að þetta verði ekkert svo hræðilegt fyrir Portland. Nú getur liðið farið að spila bolta sem hentar því frekar en hlunkast eitthvað.
Forráðamenn Portland hljóta að vera farnir að sjá eftir því að hafa notað fyrsta valréttinn sinn árið 2007 til að taka fimmtugan miðherja í stað þess að velja einhvern mest spennandi leikmann sinnar kynslóðar í Kevin Durant.
Þetta hljómar auðvitað allt mjög kunnuglega. Nú virðumst við vera komin með skýrt dæmi um það að eldingum geti í raun skotið tvisvar niður á sama stað. Nú er sviðin jörð í Portland á sama stað og ´84 þegar félagið valdi Sam Bowie númer tvö í nýliðavalinu það ár, í stað þess að taka, tja, bara einhvern annan!
Michael Jordan, Charles Barkley, John Stockton.... bara svona dæmi um leikmenn sem Portland sleppti í Bowie-blætinu sínu. Það var ekki svona gott úrval 2007, en fólkinu í Portland verður örugglega flökurt í hvert sinn sem Kevin Durant skorar yfir 30 stig í leik.