Tuesday, February 7, 2017
Flóasvindlararnir
Ef þú ert í vafa, reyndu þá að styðjast við tölur, töflur og gröf sem sýna bullið sem er sóknarleikur Golden State Warriors...
Steph og KD voru einhverra hluta vegna kosnir kó-leikmenn mánaðarins í Vesturdeildinni eftir að Warriors-liðið þeirra straujaði flesta andstæðinga sína í janúar. Kannski hefði verið ósanngjarnt að gera upp á milli þeirra, en okkur er svo sem sama. Þetta snýst um hvað liðið er að gera, þegar allt kemur til alls.
Það er samt hálfgerð bilun að skoða hvernig þessir brjálæðingar eru að skjóta boltanum. Það er ekki hægt að kalla það neitt annað en svindl. Þeir eru að spila 2K á rookie-mode meðan allir aðrir eru að ströggla fyrir öllu sínu á styrkleikastigum fyrir lengra komna. (Stundum er betra að smella músarbendlinum á myndir sem virka óskýrar og stækka þær svo hægt sé að njóta þeirra til fullnustu. Bara smá heilræði, sem á t.d. við myndina hér fyrir ofan).
Þegar skotkortin þeirra skotfóstbræðra eru skoðuð, kemur ýmislegt undarlegt í ljós. Eins og t.d. hvernig Kevin Durant virðist ekki geta keypt körfu fyrir utan þegar hann er beint á móti körfunni og svo sökkar hann í hægra horninu. En restin er líka grænmálað glóruleysi, ef svo má segja. Fyrir þá sem ekki vita, marka grænu svæðin hittni yfir meðaltali í deildinni, gult er á pari og rautt er undir meðalhittni í deildinni. Þeir Curry og KD eru venjulega grænni en Jónas frá Hriflu og þessi leiktíð er engin untantekning hvað það varðar.
Sjáið þið t.d. hittnina hjá þessum mönnum úr þriggja stiga skotunum vinstra megin á ská. Hún ætti að vera bönnuð. Þeir eru búnir að taka 217 þrista af þessu færi í vetur og beisikklí búnir að hitta helmingnum af þeim. Sem er náttúrulega ekkert annað en rugl. Svo er fólk hissa á því að það geti enginn unnið þetta Warriors-lið!*
* - Djók. Það er enginn hissa á því. Ekki vera með þessa vitleysu!
Efnisflokkar:
99 vandamál
,
Kevin Durant
,
Netbrennur
,
Skotkort
,
Stephen Curry
,
Töflur og gröf
,
Warriors
,
Þristar