Sunday, May 1, 2016

San Antonio slátraði Oklahoma í fyrsta leik


Ætli Ron Burgundy hafi ekki orðað þetta best þegar hann sagði:Margir bjuggust við því að San Antonio myndi vinna fyrsta leikinn á móti Oklahoma í nótt og margir þessara manna og kvenna hafa eflaust búist við því að sigurinn yrði stór. En þetta þarna í nótt var náttúrulega bara rugl, bara steypa.

Nema þér finnist bara eðlilegt að Spurs hafi unnið leikinn 124-92* og að lokatölurnar gefi kolranga mynd af honum, þar sem heimaliðið hefði unnið hann með 50-60 stiga mun ef það hefði á nokkurn hátt kært sig um það.

Við höfum hundrað sinnum séð seríur í úrslitakeppni NBA snúast á punktinum. Við höfum öll upplifað að lið a vinni lið b stórt á heimavelli en hljóti svo jafnvel skell á útivelli viku síðar. Þetta er allt saman þekkt, þið þekkið þetta líka. 

Menn segja að lið taki hvorki töp né sigra með sér á bakinu milli leikja í úrslitakeppninni og það getur vel verið að svo sé í 99% tilvika, en við fullyrðum að sum töp séu einfaldlega of stór til að lið geti bara kyngt þeim, gleymt þeim og haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist. 

Þetta er eitt þeirra, það getur ekki annað verið. Oklahoma getur ekki unnið þessa seríu eftir þessa útreið, það bara getur ekki verið.

Án þess að vera að berja okkur um of á brjóst, verður að segjast eins og er að áhyggjurnar sem við höfðum af Oklahoma-liðinu fyrir einvígið og fram komu í ógurlegri upphitun okkar fyrir fyrsta leikinn í gær, reyndust allar á rökum reistar.

Okkur óraði bara ekki fyrir því að Oklahoma myndi ekki aðeins spila þessa lélegu og einbeitingarsljóu vörn sem það hefur gert sig sekt um í vetur, heldur spilaði það Houston-vörn, sem er með öllu óafsakanlegt og dauðadómur þegar spilað er við jafn sterkt lið og San Antonio.

Við skulum samt átta okkur á því að Oklahoma-liðið var ekki alveg eins lélegt og tölurnar í nótt báru vott um - það var alveg satt sem Gregg Popovich þjálfari Spurs sagði - hans menn hittu bara úr öllum skotum sem þeir grýttu á körfuna. 

Meira að segja Danny Green hitti úr öllum sínum skotum, og hann er maður sem er búinn að skjóta eins og blind keisaramörgæs í allan vetur. Það gekk ALLT upp hjá San Antonio í sóknarleiknum. 

Kawhi gjörsamlega spændi vörn Oklahoma í sig og þegar hann var ekki að því, var LaMarcus Aldridge að hitta úr stökkskotum þar sem stundum voru þrír kílómetrar í næsta varnarmann. Það er ekki alveg vitað, en talið er að Aldridge hafi hitt úr eitthvað í kring um 1300 stökkskotum í leiknum.

Við þurfum ekkert að fara mörgum orðum um þennan leik. Það fór ALLT úrskeiðis hjá Oklahoma sem gat farið úrskeiðis, meðan allt gekk upp hjá San Antonio.

Sko... það getur komið fyrir hvaða lið sem er að hitta á off daga, þar sem þau bara ná sér ekki á strik, ná sér ekki upp stemmara, eru óheppin með tapaða bolta og skotin vilja einfaldlega ekki detta. Þetta kemur fyrir á bestu bæjum og það er þetta fyrirbæri sem útskýrir hluta af óförum Oklahoma í nótt.

En þar með er ekki allt upp talið. Ó, nei.

Stóra málið er að Oklahoma mætti ekki tilbúið í þennan leik og það sérstaklega varnarlega. Það var eins og útsendarar og aðstoðarþjálfarar Oklahoma hefðu verið sendir í Borgarnes að skáta Skallagrím en ekki San Antonio. 

Planið hjá Oklahoma var ekkert, liðið fann engin svör, en til að bæta gráu ofan á svart, gerðu leikmenn OKC sig seka um að gera mistök eftir mistök sem skrifast ekki á neitt annað en einbeitingarleysi. 

Hvað kallarðu það til dæmis þegar lið brýtur fjórum sinnum á mönnum í þriggja stiga skotum í einum hálfleik? Aðeins eitt af þessum tilvikum skrifast á nýliða, en að öðru leyti er ef til vill réttara að skrifa svona spilamennsku á heimsku en ekki einbeitingarleysi. Þetta var bara rugl frá a til ö.

Þegar lið fá svona skell, fara menn ósjálfrátt að leita að sökudólgum og þeir voru ansi margir hjá Oklahoma. 

En eins og við töldum upp hérna rétt áður er ekki hægt að neita því að stærstur hluti blammeringanna sem ætlaðar eru Oklahoma verða að fara á Billy Donovan og þjálfarateymið hans.

Hvað voru þeir að gera fyrir þennan leik? Voru þeir í alvörunni að skáta Skallagrím en ekki San Antonio? Er það von að við spyrjum. 

En svona í alvöru, þá er þetta ekki beinlínis fjöður í hattinn hjá Donovan, sem hefur valdið okkur vonbrigðum í vetur eins og við erum búin að tyggja 200 sinnum ofan í ykkur hér á þessum vettvangi.

En það er eitt að valda vonbrigðum í deildarkeppninni, sem strangt til tekið skiptir lið eins og Oklahoma ekki nokkru einasta máli. Það er annað að mæta í úrslitakeppnina og láta lemstrað Dallas-lið taka af sér leik og hanga inni í nokkrum öðrum og láta svo gjörsamlega fræsa á sér andlitið í fyrsta leik í annari umferð.

Það eru leikmennirnir sem spila þessa leiki, en sorry Billy boy, þú verður að taka þennan. 

Og þið Mo Cheeks verðið að koma upp með eitthvað skothelt plan fyrir leik tvö ef þið ætlið ekki að líta út eins og fífl í þessari seríu.

Haldið þið að Billy Donovan haldi starfi sínu næsta vetur ef Oklahoma verður hent út í fjórum eða fimm leikjum í þessari seríu? 

Ekki við heldur - og ekki myndum við gráta það þó hann yrði látinn taka pokann sinn. 

Það getur vel verið að Donovan sé fínn þjálfari, per se, en eins og staðan er núna hefur hann ekkert að sýna eftir fyrsta veturinn sinn annað en lið sem er á hægri niðurleið á öllum sviðum körfuboltans. Það er bara staðreynd. 

Áður en við hlöðum í sleggjudóma skulum við hafa hugfast að það er bara einn leikur búinn í þessu einvígi og að það er nánast óhugsandi að Oklahoma eigi aðra eins hörmung af leik aftur í sömu seríunni (þetta var versta tap liðsins í úrslitakeppni síðan því var stolið frá Seattle). 

En eins og við sögðum hér að ofan, eru sum töp bara svo ógeðsleg að þau geta ekki annað en límt sig inn í huga leikmanna. Hvað haldið þið að leikmenn Oklahoma fari að hugsa ef San Antonio nær aftur 10-15 stiga forystu á þá í fyrsta leikhluta annars leiksins á mánudagskvöldið?

Óháð því hvort liðið færi með sigur af hólmi og óháð því hve margir leikirnir yrðu í einvíginu, vonuðumst við um fram allt til þess að það yrði myljandi skemmtilegt. 

Nú fengum við að sjá blástur í fyrsta leiknum, en vonum svo sannarlega að þeir verði ekki fleiri - að við fáum jafnari leiki það sem eftir lifir af rimmunni. Kommon, við eigum það inni.

Eitt verðum við að minnast á svona í lokin, af því það böggar okkur alveg hrikalega. Það eru viðhorf fólks til leikjanna í úrslitakeppninni. 

Tveir leikir koma sérstaklega upp í hugann í þessu sambandi, en það eru fyrsti leikur Golden State og Houston í fyrstu umferðinni og fyrsti leikur San Antonio og Oklahoma í nótt.

Þessir leikir voru sýndir beint á Stöð 2 Sport og áttu það sameiginlegt að heimaliðið vann stórsigur í þeim báðum - Golden State burstaði Houston og mörg ykkar sáuð svo San Antonio kjöldraga Oklahoma í nótt.

Nú er Twitter ekki algildur mælikvarði á viðhorf fólks til lífsins, en eins og margir vita er það ágæta apparat alveg ljómandi verkfæri til að nota með NBA áhorfi, sem er hið besta mál. 

En það var einmitt á Twitter sem við urðum vör við full mikla neikvæðni hjá fólki í garð leikjanna, eins og til dæmis í nótt þar sem fólk var að kvarta og kveina og væla yfir því að leikurinn væri ójafn.

Auðvitað viljum við öll að leikir séu jafnir og spennandi, en sumir virðast ekki átta sig á því að það er ekki hægt að panta spennuleiki fyrirfram, heldur eiga leikirnir það til að þróast alveg eftir eigin höfði.

Það eru til tvær tegundir af NBA leikjum: jafnir og ójafnir leikir. Flestir vilja að allir leikir séu spennandi, en sú er ekki raunin. En við verðum bara að segja að okkur finnst það ákaflega barnalegt viðhorf að stimpa leiki sem ekki eru jafnir sem eitthvað drasl eða "snúsfest."

Ef þið spyrjið okkur, værum við til í að horfa á Golden State og San Antonio kjöldraga lið á hverju einasta kvöldi ef svo býr undir, af því körfubolti er hefur upp á svo endalaust margt að bjóða þó leikurinn sé kannski ekki endilega spennandi. 

Erum við ekki að horfa á körfubolta í þeirri von að við fáum að sjá góðan körfubolta!?!

Það besta sem við gerum er að horfa á góð körfuboltalið spila góðan körfubolta og þá skiptir ekki sjitt máli hvort leikirnir eru spennandi eða ekki. 

Það er fagurfræðileg unun að horfa á lið eins og Spurs og Warriors slátra andstæðingum sínum, enda eru þetta tvo af sterkustu liðum samtímans á báðum endum vallarins, andskotinn hafi það! 

Þú ættir kannski bara að drulla þér út og fara að gera eitthvað annað ef þér fellur þetta ekki í geð. Horfa kannski á hrútleiðinlegan og lélegan háskólabolta, nú eða snúa þér bara alfarið að pílukastinu og meistaradeildinni í hestaíþróttum, af því það eru góðar líkur á því að þú sért ekki alveg að ná þessu með körfuboltann.

Plís, sko.

-----------------------------------------------------------------------------------------------

* - Okkur þykir miður að vera að linka á tölfræðiskýrslur frá ESPN eftir að þessi sauðnaut breyttu boxscorinu þannig að þú þarft að smella á "sýna varamannabekk" til að sjá heildartölfræði og tölfræði varamanna beggja liða og þú þarft að gera það aftur í hvert skipti sem þú refreshar síðuna.

Þetta er versta breyting í sögu internetsins og það sérstaklega af því það er nákvæmlega allt sem mælir á móti henni og ekkert sem mælir með henni. Þetta er rakið dæmi og sönnunn þess sem við höfum alltaf haldið fram, að hinn dæmigerði vefhönnuður hjá ESPN sé álíka vel greindur og hundasleði.Vandamálið er bara að þrátt fyrir þessa heimskustu breytingu í sögu internetsins, er ESPN samt enn með skárstu boxscorin sem við höfum fundið. Reyndar er heimasíða NBA deildarinnar með ljómandi fínar tölfræðiskýrslur, en vefhönnuðirnir þar á bæ eru næstum því eins miklir fæðingarhálfvitar og kollegar þeirra á ESPN og hafa komið því þannig fyrir að það er alveg sama á hvaða síðu þú ferð á nba punktu com - það fer alls staðar í gang allt of hávært og gjörsamlega tilgangslaust video um leið og þú dettur inn á síðuna.

Heimskan sem saman er komin á þessum tveimur síðum er næg til að keyra tvö álver og ef þið hafið áhuga á þessum málaflokki, hvetjum við ykkur endilega til að senda síðunum - sérstaklega ESPN - línu og segja þeim hvað ykkur finnst um þessar heimskulegustu breytingar í sögu internetsins.

Síða ESPN var einu sinni fullkomlega solid og sinnti öllum þínum erindum á skjótan og einfaldan hátt. Undanfarin 3-4 ár hefur hún hinsvegar versnað og versnað og versnað og er ekki annað en gimmík í dag, þar sem er ekki lengur hægt að finna neitt af viti, heldur bara skrolla til eilífðarnóns niður einhver gjörsamlega tilgangslaus 30 sekúndna löng myndbönd sem ekki nokkur maður á jarðríki hefur áhuga á að skoða.

Það eina sem ESPN hefur umfram nba punktur com í þessum efnum er að þar er amk hægt að stilla það hvort helvítis myndböndin fara sjálf að spilast eður ei. Það er ekkert slíkt uppi á teningnum hjá heimasíðu NBA - enda er hún með yfirburðum sú versta sem við vitum um á internetinu.

Ef við vissum ekki betur, myndum við halda að fólkið sem hannar og heldur úti þessum síðum sé undirmálsfólk og hálfvitar, en það er auðvitað alls ekki þannig.

Þetta varð bara að koma fram, allt saman. Nú liður öllum betur.

Annars hafið þið tekið eftir því eins og við að ESPN er hægt og bítandi að missa frá sér allt sitt besta og áhrifamesta fólk og það er orðið augljóst að það er hægt og bítandi verið að skrúfa meira og meira fyrir fjárveitingar í þetta risavaxna batterí, þó það sé nú orðið partur af Illa Heimsveldinu hjá Disney.

Nú má ekki lengur eyða peningum í að framlengja við Bill Simmons, búa til 30 for 30 myndir, halda úti Grantland og halda almennilegum pennum og hönnuðum(!) í vinnu. Þeir eru eflaust farnir að skera við nögl í ljósritunarpappír, pennum og prentarableki af því að stjórn heimsveldisins verður að geta greitt sér út almennilegan arð. Svona virkar þetta í þessum heimi eins og öðrum.

Já, það er ekki ofsögum sagt að þetta hafi allt saman stigmagnast nokkuð snögglega.