Tuesday, May 3, 2016
Risasigur Oklahoma
Ekki áttum við von á þessu heldur...
Látið ykkur samt ekki detta það í hug að við ætlum að fara að skrifa einhvern 2000 orða gremjupistil um dómgæslu. Hell no.
Oklahoma spilaði kannski Houston-lega vörn í fyrsta leiknum gegn San Antonio um helgina, en Oklahoma er samt ekkert Houston. Oklahoma er ekki algjörlega karakterslaust drasl, sjáiði.
Sigur Oklahoma í leik tvö vekur eiginlega upp enn fleiri spurningar hjá okkur um frammistöðu liðsins í fyrsta leiknum, þar sem leikmenn liðsins mættu hreinlega ekki til leiks. Eins og það sé bara ekkert mál að mæta bara til leiks í leik tvö á í rimmu við San Antonio þar sem þú ert ekki með heimavallarréttinn. Kommon.
Við þykjumst hafa fylgst lengi með þessu og þykjumst vera voðalega reynd í bransanum, en eins og þið lásuð í pistli okkar eftir fyrsta leikinn, létum við stórsigur San Antonio stíga okkur aðeins til höfuðs og spáðum því að Oklahoma færi með tapið stóra á öxlunum inn í næsta leik. Það reyndist kolrangt, því þeir voru frábærir og unnu verðskuldaðan sigur
Já, dómararnir fokkuðu þessu öllu gjörsamlega upp þarna í restina, en þú getur ekki sagt að Oklahoma hafi ekki unnið fyrir þessu. Þeir voru bara einfaldlega betri, í leiknum sem þeir urðu að vinna.
Mjög margir eru búnir að missa sig í æðiskasti út í dómarana og fjölmiðlar eru sjálfum sér líkir og séð til þess að narratífið í kring um þennan leik snýst nú eingöngu um dómgæslu en ekki þá staðreynd að hér eru tvö stórkostleg körfuboltalið að reyna að drepa hvort annað. Þetta er miður, en svona er þetta bara á öld Trumps og Twitters.
Langbestu viðbrögðin við þessu kaosi komu samt frá Manu Ginobili, sem furðaði sig á dómgæslunni en hélt algjörlega ró sinni og hálfpartinn öskraði af fagmennsku. Hann vildi meina að San Antonio hefði ekki tapað leiknum á síðustu sekúndunum, heldur hefði liðið brugðist sem heild með því að halda sig ekki nógu vel við leikáætlunina.
Þetta er hárrétt hjá Manu og þetta er ástæðan fyrir því að þetta er langbesta félagið í NBA deildinni og eitt best rekna íþróttalið heims.
Það er vegna þess að allir, allt frá ræstitæknum og ródeótrúðum upp í forsvarsmenn og forseta, róa í sömu átt, eftir sama sýstemi, sem sannað hefur verið að skilar árangri.
Við bjuggumst sannarlega ekki við þessum úrslitum í gær. Við erum 100% viss um að San Antonio sé með betra lið en Oklahoma og klári þessa seríu, en það er ekkert að því að láta koma sér á óvart. Þó það nú væri.
Það er búið að vera dálítið áhugavert að fylgjast með því hvernig Spurs-menn hafa skipt með sér stigunum í fyrstu tveimur leikjunum og það er enn áhugaverðara að San Antonio hafi tapað í gær þrátt fyrir að LaMarcus Aldridge ætti annan hamfaraleik hjá þeim - gott ef hann hitti ekki úr 348.657 af 348.672 utan af velli.
KD og Russ voru flottir hvor á sinn hátt, Ibaka solid, Adams frábær í fráköstunum og Dion Waiters bætti fyrir að hafa sett niður stóran þrist með því að reyna að gefa San Antonio leikinn - fyrst með því að gefa Ginobili olnbogaskot í innkasti, svo með því að koma boltanum ekki í leik og loks með því að kasta boltanum til mótherjans.
Við vildum óska þess að við a) hefðum haft tækifæri til að horfa almennilega á leikinn (prófatíð, go figure) og b) að við hefðum eitthvað vit á körfubolta, því þá gætum við sagt ykkur hvernig stóð á því að Oklahoma náði að vinna þennan leik eftir útreiðina á laugardaginn.
Ekki varð Billy Donovan allt í einu góður þjálfari bara svona á einni nóttu...? Nei, andskotinn.
Það sem okkur fannst helst breytast frá leik eitt til tvö var að Russell Westbrook fór að hitta eitthvað, þó hann hitti ekki vel, varnarleikur Oklahoma var allt annar og þeir voru grimmari í fráköstunum, en hluti af þessu lá svo líka hjá San Antonio.
Spursarar klikkuðu virtist okkur á um það bil 840 sniðskotum í þessum leik og manstu eftir ÖLLUM skotunum sem duttu hjá liðinu í leik eitt? Jæja, þau duttu EKKI í þessum leik. Meðaltalslögmálið þarna að verki.
Nú eru næstu tveir leikir í Oklahoma og þó það gangi þvert á spár okkar, höfum við á tilfinningunni að liðin skipti þeim á milli sín. En svo getur líka vel verið að San Antonio vinni þá báða örugglega og klári þetta heima í leik fimm.
Nú eru Oklahoma menn búnir að tapa og ajustera og nú síðast töpuðu Spurs og nú þurfa þeir að ajustera. Það vill svo vel til að þjálfarateymi Spurs hefur 6000 sinnum meiri reynslu af að ajustera í seríum í úrslitakeppni NBA deildarinnar, þannig að þeir svarthvítu ættu að hafa betur á því sviði.
Kawhi Leonard á eftir að verða betri í næsta leik en hann var í leik tvö. LaMarcus Aldridge getur ekki mannlega mögulega haldið áfram að hitta svona fáránlega og hann kemur niður á jörðina í næsta leik og lendir í einu "atviki" á móti Steven Adams.
Loks þarf San Antonio að fá meira frá Tony Parker. Okkur er alveg sama þó hann sé með sprungið á báðum - San Antonio vinnur þessa seríu ekki ef það ætlar að treysta á að LaMarcus Aldridge skjóti 97% og verði með 40 stig að meðaltali í henni.
Hvað Oklahoma varðar, mun Serge Ibaka ekki verða eins áberandi (og góður) í sóknarleiknum í leikjum þrjú og fjögur, en Kevin Durant og Russell Westbrook verða samir við sig.
Durant setur einn 38 stiga leik og einn 27 stiga leik og Westbrook á eftir að tapa boltanum 15 sinnum í leikjunum tveimur.
Þá þarf Oklahoma að fá að minnsta kosti einn "WTF" leik frá einum af aukaleikurum sínum í öðrum hvorum leiknum, en þið vitið jafnvel og við að það er ekki að fara að gerast, þannig að San Antonio nær í versta falli splitti í Oklahoma og hirðir því heimavöllinn til baka - eða vinnur bara báða leikina.
Chi-chiiing! Þar hafið þið það.
Efnisflokkar:
Endurkomur
,
Spurs
,
Thunder
,
Úrslitakeppni 2016