Saturday, January 2, 2016

Varist eftirlíkingar


Þegar Larry (Bird) og Magic (Johnson) ríktu í NBA deildinni snerist allt um að gera meðspilara sína betri og þó báðir hafi verið mjög fjölhæfir og Bird til að mynda mikill skorari, snerist þetta á endanum allt um að vinna fyrir liðið. Þetta er mikil einföldun, en svona var þetta nokkurn veginn á níunda áratugnum.

Svo kemur Michael Jordan og lagði nýjar línur. Jordan var margfaldur stigakóngur og sá jafnan sjálfur um að gera hlutina hjá Chicago liðinu sínu. Þetta breyttist þegar kom fram á tíunda áratuginn, þegar Jordan fór að treysta félögum sínum betur og liðið í kring um hann fór um leið að verða sterkara. Jordan náði tökum á "leyndarmálinu" - að finna milliveginn, hvenær á að treysta meðspilurunum og hvenær á gera hlutina sjálfur.

En eins og þið munið, kaus Jordan mun oftar að gera hlutina sjálfur en að láta félögum sínum það eftir. Jú, jú, þeir áttu sín augnablik - menn eins og John Paxon og Steve Kerr settu niður eftirminnileg skot sem voru brauðmolar sem féllu af veisluborði Jordans.

En í tíð Michael Jordan gekk það að vera ofurstjarna út á það að skapa hlutina sjálfur, þrjóskast og hnoðast til sigurs á keppnisskapinu, hæfileikunum og sigurviljanum.

Þetta gerði Jordan og komst oftast upp með það, en í leiðinni bjó hann til hefð sem ekki er hægt að segja að hafi gert leiknum gott.

Það hefur örugglega ekki verið meiningin hjá Jordan að ala upp kynslóð manna sem spiluðu eins og hann, en ofurmannlegir hæfileikar hans, sigurhefð og heimsfrægð gerðu það að verkum að "allir vildu vera eins og Mike."

Það gefur augaleið að þó milljónir manna hafi viljað vera eins og Mike, gekk það einfaldlega ekki upp.

Þú hleypur ekkert bara inn á körfuboltavöll og spilar eins og besti körfuboltamaður í heimi, sama hvað þú æfir þig.

Því varð enginn eins og Mike, þó einn hafi komist dálítið nálægt því og það af yfirveguðu ráði.

Kobe Bryant vildi sannarlega vera eins og Mike og hann tók því svo alvarlega að hann hermdi allt eftir goðinu sínu - meira að segja tunguleikfimina. Kannski dálítið hallærislegt, en ef til vill skiljanlegt.

Ef þú getur hermt sæmilega vel eftir manni sem vann sex meistaratitla og var útnefndur besti körfuboltamaður heims, hlýtur það að skila einhverju.

Og sú varð raunin. Kobe fékk mikla og góða hjálp, en hann vann fimm meistaratitla með því að vera eins og Mike. Hann hjálpaði mismikið til með því að spila eins og Mike. Stundum var hann lykilmaður á bak við sigrana, en stundum færði hann sér einfaldlega allt of mikið í fang og hreinlega skemmdi fyrir liði sínu.

Dæmi Kobe Bryant sýnir okkur svo ekki verður um villst að það er ekki hlaupið að því að vera eins og Mike. Raunar er það varla hægt. Aðeins afburðaleikmenn eins og Kobe geta komist nálægt því, en eins vel og Kobe reyndi, varð hann aldrei annað en Pepsi við hliðina á kókinu hans Jordans.

En svo heldur hringrásin auðvitað áfram, og þó enn séu til menn sem vilja vera eins og Mike, eru líklega fleiri í dag sem vilja vera eins og Kobe. Þá er dæmið farið að flækjast verulega. Þá eru menn farnir að vilja vera eins og Kobe sem vildi vera eins og Mike. Það gefur augaleið að þetta er erfitt plan og tæplega vænlegt til árangurs.

Það er til nafn yfir leikaðferð Kobe og Mike - hún er kölluð hetjubolti.

Hetjubolti er hugtak sem hefur neikvæða merkingu. Menn sem spila hetjubolta ætla nefnilega að taka leikinn í sínar hendur og vinna hann upp á sitt einsdæmi, hjálparlaust, eins og Mike. Mike tókst það stundum, Kobe tókst það líka stundum, en venjulegir menn ráða ekki við þetta. Þúsundir hafa reynt, þúsundum hefur mistekist. Hetjubolti er andstæðan við liðsbolta Magic og Larry frá níunda áratugnum og er því þyrnir í augum bókstafstrúarmanna á liðsboltasviðinu.


Hetjuboltinn er dúkkar upp kollinum við og við í NBA deildinni í dag og átakanlegasta dæmið um hann er einmitt hjá sjálfum Kobe Bryant. Kobe er í kveðjutúrnum sínum, þar sem hann spilar með gjörsamlega handónýtu liði sem getur ekki neitt og á ekki að geta neitt. Kobe fær bara að spila hetjuboltann sinn, spila eins og hann hefur alltaf spilað, skjóta samviskulítið eða laust á körfuna, oft með litlu tilliti til meðspilara sinna.

Nú er svo komið að við gætum verið að fylgjast með alveg nýrri bylgju og þeirri sem við lýstum hér að ofan. Það er ekki komið í ljós enn, en það er ekki útilokað að nú færi að bera á nýrri kynslóð leikmanna - manna sem vilja vera eins og Steph.


Stephen Curry spilaði betur en nokkur körfuboltamaður í heiminum á síðustu leiktíð, þegar hann var kjörinn leikmaður ársins í NBA og bætti um betur með því að fara fyrir liði sínu alla leið að titlinum.

En eins ótrúlegt og það kann að hljóma, hefur Curry ekki aðeins verið betri í vetur en á síðustu leiktíð. Hann er búinn að vera MIKLU betri.

Og eins og við höfum skrifað 500 sinnum eða svo á þetta vefsvæði, er Curry að gera hluti sem við höfum aldrei séð áður. Algjörlega einstaka hluti. Hluti sem fyrir tuttugu árum hefðu þótt hrein og klár geðveiki. Hluti eins og að taka tíu þriggja stiga skot á hlaupum í hraðaupphlaupum, þremur metrum aftan við þriggja stiga línuna.

Rétt eins og enginn gat fyllilega verið eins og Mike, eigum við mjög bágt með að sjá að nokkur maður geti verið eins og Curry.

En látið ykkur ekki bregða þó margir eigi eftir að reyna það. Og mistakast illa.