Saturday, May 9, 2015

Rólegur, Chris


Chris Paul var langt frá sínu besta formi í nótt þegar hann sneri aftur eftir tveggja leikja fjarveru með LA Clippers vegna meiðsla sem hann varð fyrir í oddaleiknum við San Antonio um síðustu helgi.

Málið er bara að "Langt frá sínu besta formi"-Chris Paul er betri en nokkrir leikstjórnendur í NBA deildinni og í nótt færði hann liðinu sínu nákvæmlega það sem það þurfti - góða byrjun og bílstjóra. Það er algjör lúxus fyrir Paul og Clippers að hann hafi ekki þurft að spila nema um 20 mínútur og nú fær hann 48 tíma til að hvíla lærið á sér aftur.

Ef hlutirnir færu eftir bókinni í Vesturdeildinni, yrði ekki ólíklegt að við fengjum að sjá erkióvinina Warriors og Clippers í úrslitum (vesturs) og ef svo færi, VERÐUR Chris Paul að vera heill. Það sér það hver maður að Clippers ætti ekki séns í Warriors án Paul. Það yrði svona eins og að horfa upp á Gunnar Nelson berjast við Jóhönnu Sigurðardóttur

En ástæðan fyrir þessari færslu er þó ekki ofangreint, heldur langaði okkur að deila með ykkur skjáskoti af textalýsingunni frá leiknum í nótt. Myndin sýnir á ljóslifandi hátt hvernig Chris Paul stýrir sóknarleik Clippers og skapar færi fyrir sig og félaga sína meðan hann er að fræsa tölfræðiskýrslurnar.

Svo gefur hann FIMM stoðsendingar á tveimur mínútum! Og svo hendir hann í tvær körfur á eftir svona til að setja berið upp á ísinn. Eins og til að sýna okkur hvað þetta er allt saman auðvelt fyrir hann á annari löppinni. Nákvæmlega ekkert eðlilegt við þetta. Þetta er bara hroki.