Þetta er krúttið hann Dante Exum, sem Utah Jazz tók númer fimm í nýliðavalinu um daginn. Ástralinn, sem varð nítján ára gamall á dögunum, átti mjög erfitt uppdráttar í sumardeildinni í Las Vegas. Þetta er reyndar bara sumardeildin, svo það skiptir kannski ekki öllu máli hvernig menn spila þar - ekki þannig, fattiði...
Það var mikið fjaðrafok í kring um Exum í ár og margir vilja meina að hann sé efni í stórstjörnu. Hann minnir suma á Penny Hardaway og aðra á ungan Kobe Bryant. Það getur vel verið að sé pótensjall í stráknum, en hann minnti okkur hvorki á Bryant né Hardaway.
Hann spilaði nokkurn veginn eins og nítján ára gamall strákur í ókunnu landi og ókunnum aðstæðum og til að bæta gráu ofan á svart, var hann að niðurlotum kominn af þreytu í öllum leikjunum eftir allar tvöföldu æfingarnar undanfarið.
Jú, jú, Exum átti eitt og eitt huggulegt atriði í sumardeildinni, en heilt yfir fær hann ekki nema C mínus fyrir frammistöðuna.
Hitti nákvæmlega ekkert, enda svo búinn í löppunum að hann gat varla troðið þrátt fyrir að vera um tveir metrar á hæð.
Bakvörður, smakvörður *
Það er alveg jafn líklegt að Exum verði drullukaka eins og stórstjarna. Hann er með hausinn og tólin en hann á langt í land með að verða alvöru leikmaður.
Svo hjálpar það honum nákvæmlega ekki neitt að þjálfarateymi Jazz er staðráðið í því að leyfa honum alls ekki að spila stöðuna sem hann er búinn að spila síðan hann var krakki - leikstjórnandann.
Utah er vissulega með leikstjórnanda fyrir í Trey Burke, en Exum verður klárlega lengur að ná sér í sjálfstraust til að spila í NBA ef hann verður jafnvel þriðji kostur í leikstjórninni á eftir Burke og Gordon "Ásmundi" Hayward.
Þessi þrjóska í Jazz að setja Exum í skotbakvörðinn kemur íklega til af því þjálfararnir treysta honum ekki almennilega sem leikstjórnanda. Hann er að vísu ekkert sérstaklega góður með vinstri, en það er minnsta vandamál í heimi við hliðina á vandræðum hans í skotunum undanfarið.
Við munum eftir því þegar Jerry Sloan lét Deron Williams spila skotbakvörð á nýliðaárinu sínu. Það olli mikilli gremju á tímabili, en stöðubreytingin hjálpaði Williams að komast 100% inn í allar aðgerðir liðsins í sókninni og árið eftir var hann kominn í sína réttu stöðu og farinn að brillera.
Dante Exum hefur haldið því fram í öllum viðtölum sem hann hefur tekið í Bandaríkjunum að hann sé leikstjórnandi og ekkert annað. Það er hinsvegar alveg sama hvort það eru fjölmiðlamenn eða þjálfarar - allir eru búnir að ákveða að hann spili tvistinn með Trey Burke í vetur.
Við lofum ykkur að það finnast ekki tvö félög í NBA deildinni sem Exum vildi síður fara til en Utah Jazz. Honum var boðið að koma og æfa í Salt Lake City fyrir nýliðavalið en hann afþakkaði pent. Afsakaði sig með því að benda á að Utah vantaði ekki leikstjórnanda.
Nei, ekki leikstjórnanda, þó Burke verði að spila miklu betur í vetur en hann gerði á síðustu leiktíð. Nei, það er heppilegast að taka bakvörð sem getur ekki skotið og reyna að rótera honum fram og til baka frá vængnum og í ásinn, svo hann viti hvorki hvort hann er að koma eða fara.
Það á eftir að koma í ljós hvernig Quin Snyder nýráðinn þjálfari Jazz stillir upp sóknarleiknum í vetur, en hann segist ætla að nýta sér það til hins ítrasta að vera með ás, tvist og þrist sem geta sett boltann í gólfið og kemur til með að byggja sóknarleikinn mikið á góðri boltahreyfingu og penetrasjónum.
Snyder er af San Antonio-skólanum og hefur meðal annars unnið með Ká þjálfara, Larry Brown og Gregg Popovich.
Böst?
Dante Exum er sá leikmaður sem á líklega mesta möguleika á því að verða klúður nýliðavalsins (kannski fyrir utan Joel Embiid hjá Sixers ef hann nær aldrei almennilegri heilsu) í ár.
Mikið var látið með hann á mánuðunum fram að nýliðavalinu og þeir sem höfðu séð hann spila héldu ekki vatni yfir honum. En eins og oft vill verða, eru þessir bjartsýnu menn nú óðum að skila sér niður á jörðina aftur.
Exum er með pótensjal í að gera góða hluti í NBA, því er ekki að neita, en af því glasið er alltaf hálftómt hjá okkur, erum við hrædd um að neikvæði pótensjalinn sé jafnvel meiri en sá jákvæði. Pilturinn er sannarlega efni í böst - skussa og tossa.
Forráðamenn Utah ætla að gera sitt til að auka áhættuna á því að strákurinn þeirra verði flopp með því að passa að hann fái helst ekki að spila sína stöðu mikið á nýliðaárinu.
Þá verður þetta svona "leikstjórnandi með sumpart sjeikí boltameðferð skiptir yfir í skotbakvarðarstöðuna þó hann hitti ekki neitt og haldi áfram að hjakka í þessari óljósu og erfiðu stöðu í allan vetur og í stað þess að safna sjálfstrausti með því að fá að vera með boltann, missir hann allt sjálfstraust og verður því á böstvagninum allt nýliðaárið sitt og í versta falli alla sína ævi," -dæmi.
Já, hann hefur alla burði til að skíta á sig og skipta bara yfir í handboltann, en við skulum samt skoða hina hliðina á peningnum áður en við hættum þessu röfli. Nokkur atriði vinna með stráknum og benda til þess að hann gæti orðið góður ef hann leggur hart að sér og hefur heppnina með sér.
- Drengurinn er auðvitað bara nýorðinn nítján ára gamall og á því væntanlega eftir að þroskast hratt bæði á sál og líkama næstu misserin meðan hann klárar að eyða peningunum sem hann fékk í fermingargjöf.
- Það er eins lítil pressa á honum og hugsast getur. Menn reikna með því að Utah verði jafnvel lélegra en á síðustu leiktíð af því það er nákvæmlega engin reynsla í hópnum og meðalaldurinn hangir í þrettán árunum. Það verður ljómandi gott svigrúm til að gera endalaus mistök og læra af þeim.
- Verst er að svona tapkúltúr getur skemmt fyrir bæði leikmönnum og félögum. Það hlýtur að vera einstaklega niðurdrepandi að spila með liðum eins og Minnesota og Sacramento - klúbbum sem hafa ekki kynnst velgengni í um og yfir áratug.
- Og svo er Exum auðvitað með fullt af hæfileikum. Hann er öskufljótur og fínn íþróttamaður, er með flotta hæð og faðm til að nýta sér bæði í sóknar- og varnarleik, hann er nokkuð sprækur í veggnum og veltunni, óeigingjarn og les leikinn nokkuð vel.
Við skulum vona að það verði styrkur Dante Exum en ekki veikleikar sem verða í sviðsljósinu í framtíðinni. Það er erfitt að segja til um það hvað hann þarf langan tíma til að fóta sig í deildinni en við sjáum fyrir okkur að það muni taka Exum um þrjú til fjögur ár að ná fullum tökum á verkefninu.
Svo er bara að sjá hvort hann verður sprungin blaðra eða stórstjarna árið 2018.
Vonandi annað hvort eða - ekkert þar á milli.
------------------------------------------------------------------------------------------------------------------
* - Ekki er verra að byrja á svona firnasterkri millifyrirsögn sem keyrir pistilinn áfram