Tuesday, July 29, 2014

Það er ekkert grín að sauma GudmundssonÞessi krúttlega kerling heitir Donna Millak og hefur verið saumakona hjá Portland Trailblazers í yfir fjörutíu ár. Hún var meira að segja búin að vera hjá félaginu í heil fimm ár þegar það varð meistari með Bill Walton í fararbroddi árið 1977 og hefur síðan upplifað gleði og sorgir bæði í vinnunni og í einkalífinu.

Donna gamla sér meðal annars um að sauma nöfnin aftan á búninga leikmanna og er því stundum með þeim fyrstu til að frétta af því þegar félagið nælir sér í nýja leikmenn. Starf hennar hefur breyst mikið samfara bættri tækni eins og er ekki alveg sama handavinnan og það var. Á áttunda og níunda áratugnum þurftu leikmenn til dæmis sjálfir að mæta til Donnu til að máta búningana sína.

Það er langt síðan leikmenn komu til Donnu til að máta búninga, en eitt og annað stendur upp úr hjá þeirri gömlu á þessum langa ferli. Hún man þannig vel eftir því þegar hún græjaði búninginn fyrir Bill Walton, sem líklega er besti leikmaður í sögu Blazers.

"Hann var sannarlega risavaxinn," sagði Donna, sem stundum þurfti að yfirvinna feimni sína og fara inn í karlaklefann til að láta leikmennina máta búningana sína. Þar sá hún eitt og annað þó hún reyndi að horfa niður á tærnar á sér eins og hún gat.

Uppáhalds leikmaðurinn hennar var Brian Grant sem lék með liðinu frá 1997 til aldamóta. Svo mikið hélt hún upp á Grant að hún saumaði treyjuna hans á sjálfa sig eins og þið sjáið á myndinni hér til hliðar.

Sum nöfn reyndust Donnu erfiðari en önnur þegar kom að því að sauma þau aftan á búningana. Eitt það erfiðasta þurfti hún að sauma haustið 1981 þegar 218 sentimetra hár íslenskur piltur að nafni Pétur Guðmundsson gekk í raðir Blazers.

"Það var rétt svo að nafnið passaði á treyjuna og ég varð að beygja það ansi hressilega svo það kæmist fyrir," sagði Donna. Sumir segja að hún hafi þess vegna verið fegin því að miðherjinn með langa nafnið var ekki nema einn vetur hjá Blazers.

Hér fyrir neðan er mynd af liði Portland veturinn 1981-82. Þetta er ansi reffilegur hópur undir stjórn þjálfarans goðsagnakennda Jack Ramsay sem færði félaginu áðurnefndan meistaratitil árið 1977. Ramsay lést í vor, 89 ára að aldri. Hann er lengst til hægri í fremri röðinni.

Okkar maður Pétur Guðmundsson er svo að sjálfssögðu beint undir körfunni í treyju númer 40 og með mottu að framan og léttan Martin Riggs að aftan.

"Pétur sýndi það að það bjó mikið í honum þegar hann var hjá okkur," sagði Ramsay í samtali við Tímann í Los Angeles á níunda áratugnum. "Hann var með þokkalegt skot og var merkilegt nokk fínasti sendingamaður, en hann átti talsverða vinnu fyrir höndum á öðrum sviðum leiksins."